144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að fimm mínútur er ekki langur tími í þessum ræðustól og í raun alltaf miklu styttri ef maður er í ræðustólnum sjálfur en ef maður hlustar. Það er eitthvað sem maður lærir hér.

Í lok ræðu sinnar kom hv. þingmaður inn á sveigjanleika í ríkisrekstrinum. Það er tillaga í þessu frumvarpi um að hægt sé að flytja starfsmenn frá stofnunum í Stjórnarráðið eða öfugt. Nú er þegar leyfilegt að flytja starfsmenn innan Stjórnarráðsins. Félög opinberra starfsmanna voru ekki mjög jákvæð gagnvart þessari breytingu og í minnihlutaáliti okkar þá vekjum við, eins og stendur hér, athygli á þessum sjónarmiðum.

Nú var hv. þingmaður í sínu fyrra lífi, ef svo má að orði komast, formaður BSRB og reyndar í þessu lífi líka. Mig langar til að spyrja hann hvort hann geti farið aðeins meira inn á þennan sveigjanleika sem er að mínu mati ákveðinn kostur. Ég skil að við þurfum að hlusta á starfsmannafélögin, en á hinn bóginn held ég að ákveðinn sveigjanleiki í ríkisrekstrinum hljóti að geta verið til bóta.