144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ákaflega málefnalega ræðu og djúpa yfirferð sem sýnir að hann hefur kynnt sér þetta flestum þingmönnum betur.

Ég vil byrja á því að taka undir með honum varðandi vaxtaákvörðun Seðlabankans og þá hörðu yfirlýsingu sem mér fannst seðlabankastjóri gefa um framhald vaxtahækkana. Mér finnst allt benda til þess að við munum sjá hér á næstu mánuðum verulegar vaxtahækkanir og það er auðvitað ekki gott signal að mörgu leyti. En við fáum engu um það ráðið í þessum sal.

Hv. þingmaður fór yfir þá kosti sem er að finna í þessum frumvörpum gagnvart kröfuhöfum, sem voru reyndar lengi vel af flokki hv. þingmanns kallaðir hrægammasjóðir en við köllum nú bara aðila í dag. Það eru annars vegar stöðugleikaskattur og hins vegar stöðugleikaframlög ef kröfuhafarnir uppfylla svokölluð stöðugleikaskilyrði fyrir tiltekinn tíma. Kannski ætla ég hv. þingmanni um of, en hann hefur sýnt að hann hefur mikla þekkingu á málinu, en mig langar til að spyrja hvort hann geti svarað eftirfarandi: Hver er munurinn í krónum talið á annars vegar stöðugleikaskattinum ef slitabúin öll mundu greiða fullan skatt og hins vegar stöðugleikaframlögum ef þau mundu öll uppfylla þau skilyrði sem þeim hverju og einu verður gert? Nú veit ég ekki hvort þessi tala er til, ég hef ekki gert mér grein fyrir því nema gróflega, en getur hv. þingmaður sagt mér hver er munurinn á þessu?