144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu er rétt að lýsa yfir sérstakri ánægju með að þetta mál skuli vera komið á þann rekspöl sem það er. Í þessari umræðu, sem að mörgu leyti hefur verið mjög góð, hefur farið fram nokkur söguskýring og menn hafa komið hér upp og sagt söguna út frá því sem þeir hafa upplifað hana. Svo vill til að sá sem hér stendur var ekki við störf hér árin 2008, 2011 eða 2012 og þarf því ekki að fara í sprænukeppni við nokkurn einasta mann.

Það blasir við að neyðarlögin, sem sett voru árið 2008, skiptu sköpum og þau hafa haldið fram á þennan dag og haldið mjög vel. Að sama skapi er óhætt að fullyrða að lögin sem sett voru 12. mars 2012, þar sem eignir kröfuhafa voru læstar hér innan hafta, hafa líka reynst mjög vel. Áætlunin sem samin var í Seðlabankanum árið 2011, um afnám eða losun hafta, á hins vegar mjög lítið sameiginlegt með því sem við erum að fjalla um í dag vegna þess að í þeirri áætlun var ekkert um kröfuhafa sem slíka. Það er hins vegar annað í þessu máli. Mér finnst einhvern veginn eins og komið hafi fram, í máli þó nokkurra sem hér hafa flutt ræður undir þessum lið, að frá árinu 2012 hafi ekkert gerst. Því fer að sjálfsögðu fjarri.

Þegar núverandi ríkisstjórn kom til valda árið 2013 var þegar hafist handa við að greina þennan vanda. Þá var settur á hópur vaskra manna og kvenna sem á miklar þakkir skildar fyrir sína vinnu í þessu, hvernig þau hafa undirbúið þetta mál. En það vill einhvern veginn verða þannig, eða hefur einhvern veginn verið þannig, alla vega í mín eyru, í þessari umræðu sem hluti hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar vilji ekki við það kannast hver það er sem hefur haft skýra sýn á þetta mál frá upphafi, þ.e. hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Meira að segja hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur tekið undir þann söng að hæstv. forsætisráðherra hafi setið á þessu máli í tvö ár án þess að hafast að og hafi orðið landi og þjóð til skaða af þeim ástæðum. (Gripið fram í.) Ég vil segja við hv. þingmann og ég vona að mér leyfist, frú forseti, að vitna í Júlíus Sesar þegar hann sagði hér um árið: Et tu, Brute? Mér þykir með ólíkindum að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem er einna sanngjarnastur manna hér í salnum að öllu jöfnu, skuli hafa tekið undir þennan ólánskór um að hæstv. forsætisráðherra hafi á einhverjum tímapunkti eða með einhverjum aðgerðum eða aðgerðaleysi tafið fyrir þessu máli. Því fer að sjálfsögðu fjarri.

Hins vegar er niðurstaða málsins gríðarlega hagfelld og á vonandi eftir að hafa mikil áhrif á líf okkar allra inn í næstu framtíð. Það er hárrétt, sem hér hefur komið fram í umræðunni, meðal annars hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, að þessi aðgerð út af fyrir sig greiðir ekki til baka það tjón sem þetta þjóðfélag varð fyrir í hruninu, fjarri því. En aðgerðin sem slík er til þess fallin að veita þjóðfélaginu góða viðspyrnu og það er næsta víst að það munar um það að hafa undir höndum fjármuni sem koma út úr þessum aðgerðum, þ.e. annaðhvort 850 milljarða stöðugleikaskattur eða um það bil 700 milljarða undir stöðugleikaskilyrðum. Það munar um að geta í einu vetfangi greitt upp skuldabréf ríkissjóðs í Seðlabankanum og hafa undir höndum fjármuni sem geta lækkað skuldir ríkissjóðs um hartnær helming. Það munar vissulega um það, frú forseti, að í framhaldi af þeim aðgerðum er líklegt að vextir eða vaxtakostnaður íslenska ríkisins, ríkissjóðs, muni lækka um 35–40 milljarða á hverju ári. Það eru vissulega peningar sem hægt er að nota til góðra verka og margt kemur upp í hugann sem hægt væri að nota þá til án þess, nota bene, að upphefja hér þenslu eða eignabólumyndun.

Það er kannski mergurinn málsins í þeim ráðstöfunum sem menn hafa hér kynnt að þær eru til þess fallnar að losa um höft án þess að raska gengi krónunnar, eða sem minnst, og hafa heillavænleg áhrif á kjör alls almennings í landinu.

Mikið hefur farið fyrir því í þessari umræðu að þingmenn hafa haft gaman af því — sumir hverjir, sem eru meira að segja ekki mjög eðlisfyndnir — að tala um að nú sé hætt að tala um hrægammasjóði heldur heiti þeir eitthvað allt annað. (Gripið fram í.) Ég ætla að leyfa mér að vitna til orða frá síðustu öld, snúa ögn upp á þau og segja: Hrægammar eru þeir og hrægammar skulu þeir heita. Hafi einhver velkst í vafa um að sú aðgerð sem kynnt var hér laust fyrir síðustu áramót, um skuldaleiðréttingu til handa tugþúsundum heimila í landinu, væri ekki fjármögnuð af þessum sömu aðilum þá held ég að menn þurfi ekki að velkjast í vafa um það lengur. Hitt er svo annað mál að það sem gert var á þeim tíma, þ.e. að leggja þennan sérstaka bankaskatt á föllnu slitabúin, var gert til þess, alveg eins og boðað var í kosningabaráttunni 2013, að flýta þeirri aðgerð, að láta heimili landsins ekki bíða eftir því að niðurstaða fengist í þetta mál. Nú er niðurstaðan fengin í þetta mál og ég vitna til þess að á visir.is daginn eftir var fyrirsögn sem hljómaði næstum því svona, með leyfi frú forseta, „að fyrstu krónurnar færu til þess að greiða skuldaleiðréttinguna“. Menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það að sú markvissa leiðrétting sem var gerð og sú réttláta leiðrétting sem var gerð var og er gerð á kostnað þessara slitabúa, þessara kröfuhafa, þessara hrægamma.

Það er hins vegar líka athyglisvert að fylgjast með því og taka eftir því að þeir sérfræðingar sem komið hafa að málinu, komið til liðs við stjórnvöld í þessu máli — eins og bandarískur lögmaður sem Lee Buchheit heitir og hefur áður reynst okkur vel, hann segir í viðtali við mbl.is, með leyfi forseta:

„Það leiddi af gríðarlegu umfangi fjármálahrunsins á Íslandi að höftin þurftu að vara lengur en nokkur hafði reiknað með. Við slíkar aðstæður eru ekki mörg fordæmi fyrir því að höftum sé lyft. Það kæmi mér því ekki á óvart ef nemendur í alþjóðafjármálum muni lengi nota þetta sem kennslubókardæmi.“

Þetta er mjög ánægjulegur vitnisburður um það hvernig þessar aðgerðir eru settar upp og hvernig þær eru hugsaðar. Buchheit segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvatinn fyrir aðgerðunum sem kynntar voru [á mánudaginn] er þörfin fyrir að leysa greiðslujafnaðarvanda Íslands, forðast gengissveiflur og tryggja áframhaldandi efnahagsbata. Hvatinn að baki aðgerðunum var ekki sá að afla tekna. Ein afleiðing aðgerðanna verður hins vegar sú að leiða af sér umtalsvert fjárstreymi bæði króna og erlends gjaldeyris í ríkissjóð Íslands. Þetta fé má nota til að draga úr skuldum ríkissjóðs sem aftur ætti að leiða til þess að skuldatryggingaálag landsins batni og lántökukostnaður lækki.“

Kemur þá að því sem ég sagði hér áðan um að líklegt er að vaxtakostnaður ríkissjóðs muni lækka um 35–40 milljarða kr. á ári.

Þetta er gríðarlega ánægjulegt og það er rétt að lýsa yfir sérstakri ánægju með það að mér virðast flestir sem hér hafa tekið til máls deila þeirri gleði sem fylgir því að loks er kominn botn í þetta mál. Auðvitað hljótum við öll að fagna því. (ÖS: Teningunum er kastað.) Teningunum er kastað, sagði Sesar áður en hann fór yfir Tíber. Af því að ég ræddi hér nokkuð þau áform sem hér voru uppi 2011, þá eru þau í grundvallaratriðum öðruvísi en þessi ráðstöfun vegna þess að í þessu tilfelli var ekki um neinar samningaviðræður að ræða. Það verða engar samningaviðræður haldnar. Kröfuhafar standa í raun og veru frammi fyrir tveimur valkostum, þ.e. að greiða 39% skatt eða gangast undir skilyrði sem þeir þurfa að uppfylla í einu og öllu. Það er enginn afsláttur af þessum skilyrðum.

Með því að greiða skattinn verða skilin af honum allt að 850 milljarðar. Fari menn aftur á móti undir skilyrðin er líklegt að sú upphæð muni lækka um um það bil 160 milljarða kr. Niðurstaðan er einfaldlega sú að þessi aðgerð mun leiða til þess á endanum, að vonum, að lífskjör almennings í þessu landi geti batnað umtalsvert, að það skapist skilyrði til að hefja hér nýja sókn til að bæta lífskjör og nýja sókn til að bæta hér innviði, nýja sókn sem felur í sér að landið rísi loksins úr öskustónni, reynslunni ríkara. Við erum öll reynslunni ríkari og það munu allir kosta kapps um að hér verði ekki nokkurn tíma þeir atburðir sem urðu á árunum 2005–2008. Ég verð hins vegar að taka undir það sem kom hér fram í ræðu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar áðan, og ég reyndar vakti athygli á undir liðnum um störf þingsins í gær, að það er með öllu óskiljanlegt og óþolandi að Seðlabanki Íslands skuli nú þegar grípa til þess að hækka stýrivexti um 0,5 prósentustig hvað þá heldur að hóta frekari vaxtahækkunum. Ég er þess alveg fullviss, frú forseti, að þessi ráðstöfun — ég trúi því ekki að hún komi til með að standa og ég trúi því ekki að Seðlabankanum sé alvara með þetta. Í fyrsta lagi er næsta víst að vaxtahækkun af þessum toga núna, að nýgerðum kjarasamningum, er ein og sér verðbólguhvetjandi. Þessi vaxtahækkun ein og sér er verðbólguhvetjandi. Sú yfirlýsing að vextir muni hækka hér enn frekar kallar beinlínis á það að inn í landið verði allt of mikið innstreymi erlends fjármagns með tilheyrandi hættum eins og við upplifðum á árunum 2005–2008. Ég trúi því ekki fyrr en í fulla hnefana að Seðlabankinn ætli virkilega að opna gluggann á það að horfa á þessa vegferð, hvað þá heldur að leggja upp í hana. Ég bara trúi því ekki.

Það er hárrétt, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan í andsvari, að það sé ekki í valdi þeirra sem í þessum sal sitja að hafa bein áhrif á þessa ráðstöfun vegna þess að Seðlabanki Íslands er jú sjálfstæði stofnun og hefur sjálfstæði í peningamálum og vaxtamálum. Engu að síður trú ég því að innan Seðlabankans sé að finna skynsama menn og ég trúi því að þeir menn taki ákalli héðan og annars staðar frá vísum mönnum eins og Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, og fleirum sem hafa varað sterklega við því að vextir séu hækkaðir með þessum hætti. Í sjálfu sér er það kórvilla að Seðlabanki Íslands skuli ganga á undan og hækka vexti og hóta frekari vaxtahækkunum þegar fyrir liggur að með þeim ráðstöfunum sem nýkynntar eru mun lánshæfi Íslands batna, lánskjör ríkissjóðs munu batna. Á sama tíma fer Seðlabankinn fram með þessum hætti. Ég trúi því og treysti á það að menn þar, í Svörtuloftum, muni sjá að sér og muni sjá villu síns vegar og að þessar ákvarðanir, sem bæði eru gerðar og boðaðar, eru stílbrot miðað við þær aðgerðir sem nú er verið að kynna og verður gripið til.

Það hefur mikið verið talað um í þessari umræðu, eða nokkuð, um freistnivanda stjórnvalda til að nota þá fjármuni sem verða til reiðu, en ég held að þegar séu komnar fram það miklar yfirlýsingar um að menn ætli sér að nota þessa fjármuni, það svigrúm sem myndast, til að lækka skuldir ríkissjóðs, ekki nota þá til að valda þenslu og aukinni verðbólgu. Ég held að það sé næsta víst að auðvitað munu menn nota þetta einstaka tækifæri sem þeir hafa núna til að lækka skuldir ríkissjóðs og bæta þar með kjör okkar allra til lengri tíma litið.

Frú forseti. Ég vil að lokum endurtaka það að þessi aðgerð út af fyrir sig er afrek sem lengi mun verða í minnum haft. Allir sem koma að henni, starfsmenn Seðlabankans, sérfræðingahópurinn undir stjórn Sigurðar Hannessonar og Benedikts Gíslasonar, allt þetta fólk hefur lagt á sig ómælda vinnu, mjög góða vinnu, mjög vandaða vinnu, það á mikinn heiður skilið og miklar þakkir. Síðast en ekki síst er bara rétt að muna að þessi aðgerð er unnin undir styrkri forustu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr á Íslandi og við skulum bara halda því til haga að undir þeirri forustu, sem hefur haft skýra sýn á þessi mál allan tímann — ég vitna til þess sem kom fram í frægu sjónvarpsviðtali árið 2013 þar sem menn spurðu núverandi hæstv. forsætisráðherra: Hvernig stendur á því að þú einn manna talar um þetta á þennan hátt? Hvernig stendur á því að þú einn manna treystir þér til þess að lofa þessu? Svarið var náttúrlega að þetta væri hægt, peningarnir væru til, þeir yrðu sóttir með hvaða leiðum sem fara þyrfti, og nú er það orðið að veruleika, íslenskri þjóð til gæfu.