144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka þingmanninum fyrir að leiðrétta ummæli mín um Júlíus Sesar, ekki vil ég að hann liggi óbættur hjá garði.

Það er alveg rétt að ríkisstjórnin greip til fyrstu skrefanna akkúrat á árinu 2013 þegar hún kom til valda, þá voru skipaðir undirbúningshópar til þess að vinna þetta verk. Auðvitað var öllum ljóst að þetta verkefni væri eitt það stærsta sem ríkisstjórnin stæði frammi fyrir og ætlaði að leysa á þessu kjörtímabili.

Hvað varðar innbyrðisátök í ríkisstjórninni kannast ég ekki við þau vegna þess, og það kemur mjög vel fram núna þegar niðurstaðan liggur fyrir, að auðvitað eru menn einhuga í því að reyna að hámarka þær skaðabætur, sem ég vil kalla svo, sem við sóttum í greipar þessara kröfuhafa og slitabúa bankanna sem að mörgu leyti báru ábyrgð á því ástandi (Forseti hringir.) sem hér myndaðist 2008. Auðvitað ber að fagna því að sem mest náist frá þessum aðilum.