144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[10:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það lítur fyrir að það sé verið að gabba minni hlutann í þessu máli af því að það er hætta á því — kannski ekkert endilega líklegt eða hvað? — en það er alla vega hætta á því að með þessu frumvarpi sé verið að styrkja réttarstöðu þeirra sem hafa verið að veiða makríl til þess að fá honum síðan úthlutað sem kvóta í stað þess að fara einhverjar aðrar leiðir með hann eins og að úthluta honum á markaði.

Við stöndum frammi fyrir því að á næsta ári fáum við auðlindaákvæði í stjórnarskrá að öllum líkindum. Það er verið að vinna að heildarendurskoðun, þá leið sem við ætlum að fara með kvótakerfið í framtíðinni og landsmenn munu geta haft meiri aðkomu að öllum þeim málum þegar þeir sjálfir geta kallað mál til sín í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og þessu stóra máli um það hvernig skuli ráðstafa fiskveiðiauðlindinni með lögum. Um það snerist undirskriftasöfnun þar sem 51 þús. manns sögðu að ef það ætti að ráðstafa fiskveiðiauðlindinni frá Alþingi með lögum til lengri tíma en eins árs þá skyldi forseti synja því þannig að þjóðin fengi málið til sín. Þetta var gert vegna þess að í fyrsta makrílfrumvarpinu sem var lagt fram núna á síðasta mögulega degi til að leggja fram þingmál samkvæmt þingsköpum, 1. apríl, annars hefði þurft að leita afbrigða, átti úthlutunin á makrílnum að gilda í sex ár plús eitt ár áfram að eilífu. Þá fóru menn af stað með undirskriftasöfnun fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Svo var lögð fram breytingartillaga vegna þess að þeir sem lögðu frumvarpið fram sáu að þeir mundu ekki ná því fram. Þá var lögð fram breytingartillaga við það frumvarp, í rauninni í formi frumvarps, það var frumvarp sem var bara lagt inn sem breytingartillaga. Því var samt sem áður hafnað. Það var ljóst að það átti aflamarkssetja makrílinn, þ.e. veita aflahlutdeild í makríl sem hefði þýtt að hún væri til lengri tíma en eins árs. Ef því sem má veiða á hverju ári er úthlutað til eins árs er það samt sem áður úthlutun og tekur lengri tíma en eitt ár að fá þá hlutdeild aftur til baka til ríkisins. Og það er ráðstöfun með lögum á fiskveiðiauðlindinni til lengri tíma en eins árs.

Menn sáu að þeir kæmust ekki áfram með þann leik og sáu að það var samstaða í minni hlutanum um að stöðva slíkt, af því að þjóðin vill fá þessi mál til sín, og það að leggja fram nýtt frumvarp í þeim búningi eða öðrum búningi hefði þýtt að þjóðin mundi ekki hafa tíma til þess að fá til sín mál um ráðstöfun fiskveiðiauðlindarinnar með lögum. En núna er samt verið að ráðstafa fiskveiðiauðlindinni með lögum og kannski er verið að styrkja réttarstöðu þeirra sem vilja fá makrílinn kvótasettan þegar fram í sækir, það er möguleiki á því. Og þetta er gert á tveim dögum hérna í þinginu.

Hvað er ég að tala um? Jú, ef við förum í 2. gr. frumvarpsins þá segir í b-lið:

„Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Fiskistofu er heimilt, fyrir úthlutun aflahlutdeilda samkvæmt lögum þessum, 5. eða 6. gr. laga nr. 151/1996 eða öðrum lögum, að heimila tilfærslu á viðmiðun aflareynslu og annarra réttinda er tengjast veiðum milli fiskiskipa, að hluta til eða öllu leyti, þegar um er að ræða breytingu á skipastól. Það er skilyrði þessa að fyrir liggi samþykki eigenda beggja skipa fyrir tilfærslunni ef ekki er um að ræða skip í eigu sömu útgerðar.“

Nú er ég búinn að ræða þetta við m.a. reynda þingmenn hérna, einhverja reyndustu þingmennina, og þeir segja að þetta gæti styrkt réttarstöðu viðkomandi af því að þarna er verið að færa réttindi á milli, það er verið að framselja réttindi, grunnaflareynsluna sem kvótinn verði síðan grundvallaður á, aflahlutdeildin, þannig að þetta er sjens. Það er möguleiki á að þetta þýði að þeir hafi sterkari kröfu um að fá makrílinn í kvótasetningu, að fá aflahlutdeild til sín, það er sjens á því. Mér var fyrst bent á þetta utan úr bæ og svo hef ég talað við þingmenn hérna og það er sjens á því. Þetta er gert á tveimur dögum.

Það er alveg ljóst líka að flestir þingmenn í þessum sal hafa ekki hugmynd um þetta og höfðu ekki hugmynd um þetta. Ég hef talað við marga og menn sögðu bara: Ha, nú, er þetta í þessu? Já, ókei. Menn vissu ekkert um þetta. Þetta er það sem gerist þegar mál eru afgreidd svona hratt í gegnum þingið. Ef menn ætla að samþykkja þetta þýðir það að þeir eru að taka réttinn af landsmönnum því að landsmenn geta ekki farið af stað með undirskriftasöfnun á tveimur dögum. Það er verið að taka réttinn af landsmönnum, lýðræðislegan rétt sem þeir hafa verið að skapa sér á síðustu árum til þess að fara af stað með undirskriftasöfnun og þrýsta á forsetann að fá málið til sín. Með þessari hraðmeðferð erum við að taka þennan rétt af landsmönnum í máli sem varðar ráðstöfun fiskveiðiauðlindarinnar og getur haft fordæmisgefandi gildi inn í framtíðina. (Gripið fram í.) Ég er ekki að fullyrða þetta, hv. þingmaður, þetta er aftur á móti möguleiki, það er möguleiki á því. Svona gerist þegar mál eru afgreidd á svona miklum hraða.

Þetta vildi ég bara að kæmi skýrt fram. Ég er búinn að reyna síðustu daga að tala um fyrir mönnum og reyna að fá þessu frestað eða þá að haldið verði áfram með þingið eða þing kallað saman seinna í sumar þannig að það sé hægt að vinna þetta almennilega, að málið fái almennilega langa þinglega meðferð, en það hefur ekki gengið, þannig að þetta er staðan. Nú skulu landsmenn fylgjast með hverjir greiða atkvæði með þessu, hverjir styðja málið og hverjir eru á móti. Ef það reynist síðan verða þannig, eins og reyndir þingmenn hafa sagt mér, að þetta styrki það að makríllinn fari inn í kvótakerfið eins og við þekkjum það, ef það kemur fram í framtíðinni, þá mega menn vera vissir um það að ég geri landsmönnum viðvart um það þegar fram í sækir.

Ef við erum lausnamiðuð og horfum til framtíðar þá held ég að það sem við þurfum sé að halda þjóðfund, og ég bið þá sem hafa áhuga á þeirri hugmynd að hafa samband við mig, við þurfum að halda þjóðfund um hvernig eigi að ráðstafa fiskveiðiauðlindinni í lögum, þjóðfund eins og var haldinn 2009 um gildi þjóðarinnar og framtíðarsýn og hvernig landsmenn vildu sjá framtíðina á Íslandi, og svo þau gildi sem ætti að grundvalla stjórnarskrá á og hvað ætti að eiga heima í stjórnarskrá eins og gert var 2010. Ef menn hafa áhuga á því að setjast niður og skoða hvað það kostar af tíma, peningum og erfiði að koma á slíkum fundi þá hef ég mikinn áhuga á að setjast niður með slíku fólki sem gæti aðstoðað mig við að skoða þetta. Það kostar ekki mikinn tíma að skoða hvað þarf til til þess að halda slíkan þjóðfund og á þeim forsendum væri síðan hægt að skoða framhaldið.