145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:23]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það þarf auðvitað að taka fram að samgönguáætlun er aldrei fjármögnuð. Fjármagn til samgöngumála ræðst í fjárlagagerðinni þannig að á hverjum tíma þarf alltaf að hafa það í huga að þær tölur sem í samgönguáætlun standa, jafnvel þótt sé að sjálfsögðu búið að ræða það við yfirvald fjármála í landinu, þá er hún engu að síður þar til Alþingi hefur gengið frá fjárlagafrumvarpi ófjármögnuð stefnumörkunaráætlun.

Þegar fyrir lá að ekki væri hægt að fara í þá aukningu í samgöngumálum sem við höfðum ráðgert á fyrri hluta ársins þurfti að sjálfsögðu að fara að forgangsraða verkefnum í fjárlagagerðinni. Og þá var það bara með þeim hætti að niðurstaðan varð sú að það þyrfti að skera einnig niður í hafnarframkvæmdum.

Það vita náttúrlega allir sem um þessi mál véla að veruleg fjárfestingarþörf er í höfnum landsins. Þær eru margar komnar mjög til ára sinna og það þarf að þilja þær margar hverjar víða um land. Í kjördæmi hv. þingmanns eru hafnir sem bíða nauðsynlegs viðhalds og í þessu er um umtalsverða fjármuni að ræða. Það er bara þannig í þessari fjárlagagerð núna að við höfum ekki úr meira fé að spila. Við þurfum að ákveða hvert útgjöldin fara, það er ekki hægt að ætla sér að setja mikla fjármuni í húsnæðismál, í velferðarmál og að sjálfsögðu í kjaramál og halda að það muni ekki hafa neina þýðingu fyrir aðra málaflokka. Það er bara þannig að þeir málaflokkar vega þungt og það er rétt að verja fjármunum þangað. Á meðan verða þeir sem um samgöngumál véla að sýna ráðdeild og þolinmæði. Þannig er það.