145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra yfirferðina yfir fjárlagafrumvarpið 2016 sem lýtur að umhverfisráðuneytinu. Það er tvennt sem mig langar til að spyrja ráðherra út í; annars vegar varðar það friðlýsingarnar. Nú er það svo að samkvæmt rammaáætlun erum við með fjölda svæða í verndarflokki og þar eru svæði sem fara þarf í friðlýsingu á en afskaplega lítið viðbótarfjármagn er sett inn í það. Ég spyr ráðherra: Telur hún ekki þörf á meira fjármagni til að við getum fylgt eftir þeim samþykktum sem við gerum hér um vernd á Alþingi?

Hins vegar er það losun gróðurhúsalofttegunda. Við samþykktum hér á Alþingi aðgerðaáætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ráðherra nefndi í máli sínu eflingu skógræktar og landgræðslu. Það er jákvætt, það er binding á gróðurhúsalofttegundum en það er ekki aðgerð til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort verið sé að fylgja eftir þessari aðgerðaáætlun og ég verð að játa að ég sá ekki vísað í hana í fjárlagafrumvarpinu. Ég spyr: Er hún ekki fjármögnuð með viðunandi hætti?