145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst fagna því sem hæstv. ráðherra rakti um aukningu í byggða- og sóknaráætlanir landshluta. Ég fagna því að ríkisstjórnin hafi umfaðmað þá aðferðafræði sem hægt er að segja að víðtæk þverpólitísk samstaða sé um og sem ég held að skili nú miklum árangri vítt og breitt um land, því að við eigum mikið undir því að vera með skilvirka og öfluga byggðastefnu.

Ég fagna því líka, ég sé þess nú reyndar ekki stað í frumvarpinu, að ég heyrði í máli hæstv. ráðherra að hér væri líka að finna viðbótarframlög vegna dýralæknisþjónustu á Norður- og Austurlandi sem ég hef heyrt mikið kvartað undan; bændur eru í mikilli óvissu um velferð gripa sinna. Ég treysti því að þessi fjárframlög sé þar að finna og fagna því í samræmi við orð hæstv. ráðherra.

Ég vil hins vegar spyrja sérstaklega og velta upp spurningum varðandi hafrannsóknir. Hér er gert ráð fyrir sameiningu stofnana í Haf- og vatnarannsóknastofnun, þ.e. sameiningu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, en ekki er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum.

Dæmi eru um að slíkar sameiningar kosti fé. Ég velti því upp hvort menn séu þá raunverulega búnir að áætla nægjanlega fyrir því en minni líka á að hér urðu miklar umræður síðasta vetur. Ég spurði hæstv. ráðherra þá oft um skort á fjárveitingum til hafrannsókna. Það var illmögulegt að halda úti skipum Hafrannsóknastofnunar og menn fóru í mjög undarlega loftfimleika með því að gefa einkafyrirtækjum kvóta og láta skip útgerðarfyrirtækja fara í rannsóknaleiðangra frekar en að gera út skip Hafrannsóknastofnunar.

Á ferðum mínum um landið nú nýverið heyrði ég víða miklar áhyggjur af ástandi hafrannsókna. Útgerðarmenn sögðu við mig að þær væru komnar langt undir hættumörk og að leggja yrði meira fé í grunnrannsóknir. Við værum komin svo langt að við værum farin að tefla markaðsstarfi íslensks sjávarútvegs í tvísýnu vegna þess að ekki væri lengur tryggt að nægjanlega góðar, öruggar og hlutlausar rannsóknir væru fyrir hendi til þess að fiskvinnslufyrirtækin og sjávarútvegsfyrirtækin gætu staðfest fyrir viðskiptamenn sína að um sjálfbærar veiðar væri að ræða á Íslandi vegna þess að búið væri að skera svo mikið niður í hafrannsóknum. (Forseti hringir.)

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er ekki gert ráð fyrir viðbótarframlagi til hafrannsókna? (Forseti hringir.) Ég tel, miðað við skelfilega lýsingu útgerðarmanna vítt og breitt um landið, að mjög brýnt (Forseti hringir.) sé að bæta í hafrannsóknir.