145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Freyju Haraldsdóttur fyrir fyrirspurnina. Eftir yfirfærsluna var lagt til að farið yrði yfir forsendur hennar, hvernig hefði gengið. Ég er núna að bíða eftir því og mun vonandi fá á næstu vikum skýrslu nefndar, sem að vísu hefur aðeins tafist, um reynsluna af yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaganna.

Sveitarfélög hafa komið og talað við mig. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur rætt við okkur í ríkisstjórninni um verulegar áhyggjur sveitarfélaga af því að þrátt fyrir að kostnaðargreining sýni að fyrstu tvö árin eftir að málaflokkurinn fór yfir hafi verið afgangur af rekstrinum en síðasta árið, þriðja árið, hafi orðið verulegur halli þrátt fyrir að á sama tíma hafi tekjur sveitarfélaganna aukist verulega frá því sem áður var. Tekjurnar sem sveitarfélögin fengu af þeim tekjustofnum sem þau fengu við yfirfærsluna hafa aukist verulega en kostnaðurinn hefur einfaldlega aukist enn meira.

Vegna þróunar og upptöku jöfnunarsjóðs, eins og hv. þingmaður nefndi, varðandi útdeilingu fjármuna í SIS-matinu þá hefur þetta komið með mjög mismunandi hætti niður á sveitarfélögum. Sveitarfélög sem áður voru mjög ósátt og fóru í gegnum SIS-matið fengu endurúthlutun, þ.e. breytingar á úthlutun til sín, en önnur sveitarfélög sem voru kannski sáttari hafa orðið mun ósáttari eftir að þau fengu niðurstöðu SIS-matsins.

Við meðferð þingsins á fjárlagafrumvarpinu og tekjuöfluninni eiga sér stað samskipti við Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem farið er yfir hvort ástæða sé til að gera breytingar á fyrirkomulaginu eða ekki. Það má því vænta þess að sú niðurstaða liggi einmitt fyrir áður en við munum afgreiða fjárlagafrumvarpið (Forseti hringir.) þar sem tekið verður tillit til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður nefndi (Forseti hringir.) meðal annars hér og sveitarfélög hafa viðrað áhyggjur af við okkur.