145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

virðisaukaskattur.

8. mál
[19:02]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir máli nr. 8 á þskj. 8. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Flutningsmenn málsins ásamt þeim sem hér mælir eru hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason.

Ég mun í framsögu minni fara yfir einstakar greinar frumvarpsins eins og þær koma fyrir, segja má að tilgangurinn speglist í lagagreinum þess, en þó mun ég jafnframt fara yfir fyrirliggjandi greinargerð til frekari rökstuðnings málinu og að nokkru marki inntak þeirra umsagna sem borist hafa um þetta mál sem hefur tvívegis áður verið lagt fram eins og fram kemur í meðfylgjandi greinargerð.

Frumvarpið eins og það er lagt fram nú er þrjár lagagreinar sem ég ætla nú að lesa eins og þær koma fyrir í frumvarpinu. 1. gr. frumvarpsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Þjónusta og vörusala íþróttafélaga og æskulýðsfélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi slíkra félaga, þar með talið fjáröflun vegna keppnis- og æfingaferða félagsmanna, svo sem sala auglýsinga, útgáfustarfsemi, verslunarrekstur, veitingasala og sala varnings eða þjónustu.

2. gr. hljóðar svo:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Á tímabilinu 1. janúar 2016 til 1. janúar 2017 skal endurgreiða íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélögum 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhald íþróttamannvirkis, af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með nýbyggingu eða endurbyggingu eða vegna viðhalds þess háttar húsnæðis, sem og af efniskaupum til slíkra framkvæmda. Endurgreiðslan skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti.

Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslunnar.

3. gr. kveður svo á um að lög þessi öðlist þegar gildi.

Virðulegi forseti. Það má segja að lagagreinarnar endurspegli þannig að nokkru þann tilgang sem við flutningsmenn ætlum þessum breytingum á lögum um virðisaukaskatt, en í greinargerðinni er þó um að ræða ítarlegri rökstuðning og ætla ég nú að taka hana til frekari yfirferðar.

Þetta frumvarp sem við ræðum var áður lagt fram á síðasta löggjafarþingi, þ.e. 144, mál nr. 411. Það gekk þá til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og var sent til umsagnar hjá helstu hagsmunaaðilum. Umsagnir sem bárust eru almennt mjög jákvæðar og gerðu hv. flutningsmenn grundvallarbreytingar á frumvarpinu í samræmi við þær ábendingar. Stærsta breytingin frá því að það var lagt fram síðast er sú að við bætast nú æskulýðsfélög. Þykir flutningsmönnum það samræmast vel markmiðinu með frumvarpinu sem miðar að því að byggja upp og styrkja mannvirkjagerð í þágu skipulagðrar starfsemi barna- og unglingastarfs og svo styðja og efla við allt það sjálfboðaliðastarf sem það hvílir á. Þá er það jafnframt enn frekar í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar að lútandi.

Ég ætla að bera niður í umsögn fulltrúa æskulýðsfélaga. Um er að ræða sameiginlega umsögn KFUM og KFUK og Bandalag íslenskra skáta. Ásamt því að leggja til breytingar við frumvarpið leggja forsvarsmenn umsagnaraðila áherslu á eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Grunnhugmynd frumvarpsins er í meginatriðum fagnað.

Bent er á að laga þarf frumvarpið svo það nái einnig til viðurkenndra æskulýðssamtaka, svo sem KFUM & KFUK og skátanna, að öðrum kosti mismunar frumvarpið aðilum.

Núverandi virðisaukaskattsumhverfi virðisrýrir gjafir til æskulýðsfélaga og fórnfúst starf sjálfboðaliða.“

Þannig styðja umsagnaraðilar við þá grundvallarhugmyndafræði sem felst í frumvarpinu „að mikilvægt sé að styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf sem byggir starfsemi sína og afkomu á fórnfúsum gjöfum almennings og dýrmætu starfi sjálfboðaliða. Frumvarpið er jákvætt skref í átt að framangreindu, enda munu gjafir til íþróttahreyfingarinnar sem og viðurkenndra æskulýðsfélaga […] nýtast til fulls ef frumvarpið verður að lögum.“

Þá nefna umsagnaraðilar jafnræði og kalla á breytingar því að frumvarpið megi ekki einskorða við íþróttafélög heldur sé nauðsynlegt að það nái til annarra viðurkenndra æskulýðssamtaka, svo sem starfs skáta, KFUM og KFUK, eins og kemur fram í þessari umsögn. Frumvarpið hafi falið í sér mismunun, að áliti æskufélaga, eins og það var upphaflega. Sem dæmi var þar gerður greinarmunur á byggingu skíðaskála og byggingu skátaskála. Slík mismunun gangi ekki upp og brjóti gegn grundvallarhugmyndum um sanngirni og jafnræði aðila sem starfa að sömu hugsjón.

Í umsögninni sem ég fer hér yfir benda umsagnaraðilar á að á árunum eftir hrun hafi ríkisvaldið staðið fyrir verkefninu Allir vinna þar sem einstaklingar voru hvattir til viðhalds og nýframkvæmda með því að gefa þeim færi á endurgreiðslu virðisaukaskatts af kostnaðinum. Verkefnið náði ekki til íþrótta- og æskulýðsfélaga sem segja má að hafi lent á milli skips og bryggju. Til dæmis náði verkefnið ekki til framkvæmda við nýjan skála í Vatnaskógi en náði á sama tíma til sumarbústaða sem einstaklingar voru að smíða hinum megin við girðinguna.

„Verkefnið Allir vinna gaf fordæmi. Með frumvarpinu lítum við svo á að röðin sé núna komin að íþrótta- og æskulýðsstarfinu.“

Ég fer enn yfir þessa umsögn. Ég nefndi hér áðan það sem kemur hér fram:

„Mikill skortur á viðhaldi fasteigna.

Líkt og hjá íþróttafélögunum verður rekstur fasteigna, endurnýjun og viðhald þeirra sífellt stærri útgjaldaliður hjá hreyfingum umsagnaraðila. Mæta þarf auknum kröfum til öryggis og aðgengis og í kjölfar hrunsins hafa mörg viðhaldsverkefni þurft að bíða.

Tekjuskerðing sem félagasamtök umsagnaraðila hafa tekið á sig í kjölfar hrunsins hefur bitnað alvarlega á viðhaldi fasteigna. Þörfin á viðhaldinu minnkar þó ekki með tímanum, vandanum er einfaldlega varpað á þá sem taka við félögunum á komandi árum.“

Þá telja umsagnaraðilar jafnframt að í frumvarpinu felist mikilvægur hvati og jákvæð áhrif á félög og atvinnulíf og nefna sem dæmi:

„Ef settar eru 5 milljónir í viðhald á félagshúsi í dag fer tæp milljón af þeim fjármunum beint til ríkissjóðs. Það virðisrýrir gjafir einstaklinga til verkefnisins. Nái frumvarpið fram að ganga, má ráðgera að félagasamtök sem okkar framkvæmi fyrir a.m.k. 20% meira en þau annars hefðu ráð á.“

Og verði frumvarpið að lögum, eins og lagt er upp með, felist í því mikilvægur hvati til aukins drifkraftar í æskulýðsfélögum, bæði hvati til aukinnar söfnunar en jafnframt aukinnar notkunar á fjármunum til viðhalds og endurbóta á félagshúsum og starfsaðstöðu. Slíkt yrði jafnframt innspýting í atvinnulífið þó að það sé nú ekki meginmarkmiðið með þessu frumvarpi.

Þá árétta umsagnaraðilar mikilvægi réttra skilgreininga og telja þannig að mikilvæga forsendu framgangs frumvarpsins vera þá að íþrótta- og æskulýðsfélög séu rétt skilgreind. En í frumvarpinu, eins og það var lagt fram í fyrsta og annað sinn, var miðað við að félög væru aðilar að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands en sambærilegt viðmið liggi beint við hvað varðar viðurkennd æskulýðsfélög. Þannig megi gera þá kröfu að eftirlitsfélög séu aðilar að æskulýðsvettvangnum. „Skilgreiningarvandi ætti því ekki að stöðva framgang frumvarpsins eða meðfylgjandi breytingartillögu umsagnaraðila.“

Eins og ég sagði hér áðan þá höfum við flutningsmenn frumvarpsins nú brugðist við með breytingum á frumvarpinu frá því að það var síðast lagt fram og þannig má segja að við tökum heils hugar undir þá röksemdafærslu sem fram kemur í þeirri umsögn sem ég fór yfir. Í raun og veru kemur þar margt fram sem styður við málið í heild sinni og lítum við hv. flutningsmenn málsins svo á að með þessari breytingu sé verið að gæta jafnræðis milli íþróttafélaga og annarra viðurkenndra æskulýðsfélaga þannig að þær aðgerðir sem felast í þessum lagabreytingum nái ekki einvörðungu til íþróttastarfs heldur einnig til annars æskulýðsstarfs. Þannig styðji hún enn betur við markmið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála og samþættingu leiks og náms eftir því sem kostur er. Stuðla ber að því að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem um ræðir íþróttir, listnám, listsköpun eða félagsstarf. Slíkt starf þroskar einstaklinginn og hefur mikið forvarnargildi.“

Þannig eiga þau rök sem tilgreind eru í greinargerð með upphaflegri tillögu um mikilvægi íþróttastarfsins fyrir æsku landsins ekki síður við um starf annarra æskulýðsfélaga. Því er gert ráð fyrir að með æskulýðsfélögum í tillögu þessari sé átt við þann skilning æskulýðslaga nr. 70/2007 og nái til slíkra félaga og annarra sambærilegra félagssamtaka sem njóta jafnframt viðurkenningar með aðild að samtökum æskulýðsfélaga. Slíkt viðmið aðildar er sambærilegt því sem fram kemur í greinargerð með upprunalegu frumvarpi sem gerir ráð fyrir aðildar íþróttafélaga að ÍSÍ.

Virðulegi forseti. Upphaflega lögðum við flutningsmenn málið fram í formi þingsályktunartillögu um endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar. Það var á 143. löggjafarþingi, mál nr. 487. Hér er málið lagt fram í þriðja sinn og í annað sinn sem frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og miðar að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar. Breytingin er tvíþætt og gerir annars vegar ráð fyrir að endurgreiða skuli íþrótta- og ungmennafélögum 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhald íþróttamannvirkis, af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með nýbyggingu eða endurbyggingu eða vegna viðhalds þess háttar húsnæðis, sem og af efniskaupum til slíkra framkvæmda. Eins og kemur skýrt fram í lagagrein skal endurgreiðslan fara fram á grundvelli framlagðra reikninga og eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti.

Í annan stað er frumvarpið lagt fram til eflingar sjálfboðaliðastarfi og stuðningi við slíkt starf. Þar er lagt til að þjónusta og vörusala sem stunduð er til að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi íþrótta- og æskulýðsfélaga, svo sem sala auglýsinga, útgáfustarfsemi, verslunarrekstur, veitingasala og sala varnings eða þjónustu til öflunar fjár til starfseminnar, verði undanþegin virðisaukaskatti.

Í greinargerðinni er komið inn á hvaða þýðingu skipulegt barna- og unglingastarf hefur og vart þarf að fjölyrða um þjóðhagslegt mikilvægi íþróttahreyfingarinnar og annarrar æskulýðsstarfsemi. Fjölmargar rannsóknir staðfesta forvarnagildi íþrótta og þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi dregur úr líkum á hvers konar frávikshegðun. Ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru til að mynda líklegri til að nota vímuefni en þau sem eru virkir þátttakendur í slíku starfi. Þá hafa rannsóknir jafnframt sýnt fram á að þátttaka í íþróttum hefur meðal annars jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan. Þannig má leiða líkur að því að skipulagt starf íþróttafélaga og sá félagslegi sess sem þau skipa í hverju samfélagi leiði til þjóðhagslegs heilsuábata eins og minna álags á heilbrigðiskerfið þar sem rannsóknir hafa þess utan sýnt að aukin hreyfing dregur úr tilfellum alvarlegra sjúkdóma. Þá hefur verið sýnt fram á jákvæð áhrif á skólastarf og vinnumarkað í formi færri tapaðra vinnustunda, færri veikindadaga og aukinnar framleiðni. Þá má einnig nefna framgöngu afreksfólksins okkar og þá landkynningu sem það færir okkur til framgangs viðskipta- og ferðaþjónustu svo ekki sé minnst á styrkingu sjálfsmyndar og stolt þjóðarinnar á okkar bestu stundum. Það er því mikilvægt að skoða efnahagslegt vægi íþrótta og áhrif skipulagðs íþróttastarfs á vegum hreyfingarinnar í víðu samhengi.

Við hljótum að velta því fyrir okkur með hvaða hætti við sjáum hlutverk ríkisins í stuðningi og uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsstarfs. Að einhverju marki snýr það að því að stuðla að og tryggja sem besta umgjörð og aðbúnað með skipulagðri starfsemi á vegum íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsfélaga almenningi til heilla. Þetta frumvarp er í samræmi við slíkt hlutverk og er eins og áður sagði í fullu samræmi við og styður markmið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er sérstök áhersla á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmál og samþættingu leiks og náms eftir því sem kostur er.

Í greinargerðinni er jafnframt farið yfir skilgreiningar varðandi íþróttafélög og íþróttastarfsemi og vitnað í leiðbeiningarit ríkisskattstjóra en þar er skilgreining á íþróttafélagi eftirfarandi: „Með íþrótta- og ungmennafélagi er hér átt við félag sem hefur íþróttir á stefnuskrá sinni og hefur fengið aðgang að íþróttahreyfingunni með aðild að héraðssambandi eða íþróttabandalagi, sbr. 2. kafli laga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).“ Þannig afmarkar ríkisskattstjóri íþróttastarfsemi við iðkun íþróttagreina sem stundaðar eru innan aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Þegar kemur að tekjuskatti, en við erum hér að ræða virðisaukaskatt svo því sé nú haldið til haga, þá teljast íþróttafélög undanþegin svo fremi sem þau verji hagnaði sínum einvörðungu til almannaheilla og hafi það einasta að markmiði samkvæmt samþykktum sínum, samanber 4. gr. tekjuskattslaga. Þetta er í greinargerðinni til frekari afmörkunar á því hvað átt er við með tilgangi og skilgreiningu íþróttafélaga. Þar er kveðið á um hinn ófjárhagslega tilgang í samþykktum viðkomandi félags og girt fyrir að til arðgreiðslu til eigenda geti nokkurn tíma komið. Öllum hagnaði þarf þannig að verja til almenningsheilla. Almenn íþróttastarfsemi er þannig talin vera almenningsheillastarfsemi í þeim skilningi.

Með íþrótt er að mati ríkisskattstjóra átt við hvers konar líkamlega þjálfun með iðkun íþróttagreina sem almennt er stunduð innan aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Í íþróttalögum, nr. 64/1998, merkja íþróttir hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti.

Reglubundin starfsemi íþróttafélaga er undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 5. tölulið 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Það þýðir, virðulegi forseti, að íþróttafélög innheimta engan útskatt sem lýtur að íþróttastarfsemi og fá á hinn bóginn ekki dreginn frá innskatt vegna kaupa á aðföngum til starfseminnar. Öll sala íþróttafélaga á aðstöðu til æfinga og iðkunar íþrótta, þar með talin félagsgjöld og æfingagjöld, fellur undir undanþáguákvæðið. Þrátt fyrir að íþróttafélög séu undanþegin virðisaukaskatti vegna íþróttastarfsemi sinnar þá eru þau virðisaukaskattsskyld ef þau selja vörur eða virðisaukaskattsskylda þjónustu í atvinnuskyni eða í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi mundi þá teljast auglýsingasala, þar með taldir svokallaðir samstarfssamningar, útgáfustarfsemi, rekstur verslunar, veitingasala og svo ýmiss konar fjáraflanir. Þá er til staðar virðisaukaskattsskylda af eigin þjónustu, svo sem rekstur þvottahúss o.s.frv. Með frumvarpi þessu er lagt til að öll sölustarfsemi íþróttafélaga verði undanþegin virðisaukaskatti.

Ég ætla nú, virðulegi forseti, að árétta frekar þau markmið sem um ræðir með þessu frumvarpi og í þeim tilgangi sem því er ætlað að vinna að, verði þetta frumvarp að lögum. Grunnurinn að öflugu íþróttastarfi á Íslandi hefur lengi verið þátttaka sjálfboðaliða og starfsemi íþróttahreyfingarinnar byggir enn að verulegu leyti á sjálfboðaliðastarfi. Fjöldi fólks leggur íþróttahreyfingunni lið án þess að þiggja endurgjald fyrir störf sín. Stjórnir, nefndir og ráð aðstoða við framkvæmd íþróttamóta og kappleikja og standa að ýmiss konar starfi og fjáröflun. Einn jákvæðasti þátturinn í þessu starfi er aukin aðkoma foreldra og stuðningur þeirra við íþróttaiðkun barna sinna.

Eins og málum er háttað getur ábyrgð stjórnarmanna og annarra sjálfboðaliða á framtals- og skýrsluskilum, skattskilum og opinberum gjöldum verið mikil og jafnvel meiri en flestir sjálfboðaliðar gera sér grein fyrir. Opinberir aðilar geta beitt þungum viðurlögum við vanskilum á opinberum gjöldum og geta vanskil jafnvel varðað fangelsisvist. Líklegt má telja að þeim aðilum sem taka að sér sjálfboðaliðastörf í íþróttahreyfingunni mundi fækka verulega væri þeim þessi ábyrgð að fullu ljós og þeir upplýstir um þau viðurlög sem beita má í raun og veru. Það er því mikilvægt að löggjafinn bregðist við og skapi um leið hvetjandi umhverfi fyrir allt sjálfboðaliðastarf og stuðli þannig um leið að sem mestri þátttöku foreldra í því barna- og uppeldisstarfi sem íþróttahreyfingin og reyndar öll æskulýðsstarfsemi veitir börnum og unglingum.

Iðkendum fer sífellt fjölgandi, bæði í þeim hópi sem heyrir undir skilgreiningu afreksíþrótta og í þeim hópi sem út frá lýðheilsusjónarmiðum er ekki síður mikilvægur og tilheyrir almenningsíþróttum. Þessu til stuðnings má nefna að iðkendum sem hlutfalli af fjölda úr þjóðskrá hefur fjölgað úr 19,7% árið 1994 í 27,2% árið 2011. Áberandi fjölgun er í hópum barna og unglinga og eldri borgara. Þörfin fyrir fleiri mannvirki til að sinna þessum vaxandi fjölda eykst því sífellt. Ákall þar um er áberandi hjá mörgum íþróttafélögum eins og kom fram í fjölmörgum umsögnum þegar málið var lagt fram í annað sinn í vor. Þá var áberandi ákall um að þegar þyrfti að bregðast við þessum aukna fjölda og bæta við aðstöðu til að tryggja að allir gætu notið sem bestrar aðstöðu og aðbúnaðar bæði við iðkun íþrótta og allt félagsstarf. Víða er sprungið utan af starfseminni og þörf á viðhaldi og uppbyggingu nýrra mannvirkja. Þá er félagslegi þátturinn ekkert síður mikilvægur þegar við horfum til þessarar uppbyggingar. Við sjáum mjög jákvæða þróun í aukinni þátttöku foreldra og aðstandenda í öllu starfi og leik barna og unglinga.

Þrátt fyrir göfug markmið þá kemur það iðulega fyrir með slík viðfangsefni, sem er raunar viðbúið, að markmið á hinum pólitíska vettvangi stangast á við þau. Það á sannarlega við hér því að markmið um einföldun skattkerfis, m.a. með fækkun undanþágna og breikkun skattstofna á þeim mikilvæga tekjuliði sem um ræðir, þ.e. virðisaukaskatti, fyrir tekjuöflun ríkissjóðs getur auðvitað aukið flækjustig þegar kemur að tengdri starfsemi og samkeppnisrekstri. Athugasemdir í þessa veru bárust frá ríkisskattstjóra, Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins síðast þegar málið var lagt fram. Ég met það svo af þeirri umræðu sem þegar hefur farið fram um málið að það sé í rauninni ekki flokkspólitískt í eðli sínu og hér reynir á mat þess hvort vegur þyngra, markmiðin um stuðning við barna- og æskulýðsstarf og sjálfboðaliðastarfið sem sú starfsemi sem um ræðir hvílir á eða þau markmið sem við horfum til varðandi skattkerfið sjálft.

Við flutningsmenn málsins erum tilbúin að skoða alla færar leiðir og rökstuddar breytingar í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Í því samhengi þarf að skoða mismunandi stöðu einstakra aðila sem þessi leið í gegnum skattkerfið nær til. Sem dæmi kom mjög greinargóð umsögn frá Golfsambandi Íslands sem er fjölmenn hreyfing með um 17 þúsund skráða félaga og 65 golfklúbba víðs vegar um landið og er því næststærsta sérsambandið innan Íþrótta- og Ólympíussambands Íslands. Golfsambandið fagnar fram komnu frumvarpi, það kemur skýrt fram í umsögn þess, og tekur alfarið undir og styður mannvirkjahluta frumvarpsins, þ.e. endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar, og hvetur í raun nefndina til að stíga skrefið til fulls og leggur reyndar til að hverfa frá þeirri tillögu að einungis verði um að ræða bráðabirgðaákvæði til eins árs, eins og lagt er upp með í frumvarpinu, heldur verði þetta ákvæði í staðinn til framtíðar í lögum um virðisaukaskatt. Það er þá verkefni hv. efnahags- og viðskiptanefndar að ræða það, sem dæmi. Jafnframt vekur Golfsambandið athygli á þeirri staðreynd að íþróttamannvirki eru reist og byggð af fleiri aðilum en íþrótta- og ungmennafélögum og það gæti valdið brotum á jafnræðisreglu ef mismunandi reglur giltu um endurgreiðslur eftir rekstrarformi þess sem reisir íþróttamannvirkin. Því væri eðlilegt að endurgreiðsla samkvæmt tillögunni gilti almennt um íþróttamannvirki óháð rekstrarformi þess sem sæi um bygginguna. Mér finnst mikilvægt að nefndin skoði þessar ábendingar sem koma jafnframt fram hjá fulltrúum knattspyrnuhreyfingarinnar sem er þá sú stærsta innan ÍSÍ.

Í öllum umsögnum frá fulltrúum íþróttahreyfingarinnar var tekið undir rök um þjóðhagslegt mikilvægi skipulagðs íþrótta- og félagsstarfs og lögð áhersla á að sá sparnaður sem bætt heilbrigði landsmanna legði til í heilbrigðiskerfinu margfaldaðist í réttu hlutfalli við þá fjármuni sem veittir væru í þennan málaflokk og að ívilnanir í formi endurgreiðslu virðisaukaskatts á framkvæmdum og viðhaldi skiluðu sér þannig margfalt til baka í minni útgjöldum til velferðar- og heilbrigðismála. Það er auðvitað eitt af meginmarkmiðum þessa frumvarps, eins og ég kom inn á áðan.

Vegna 1. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að öll starfsemi íþróttafélaga verði undanþegin virðisaukaskatti benda nokkrir aðilar á, til að mynda Golfsamband Íslands og aðilar þess, að mikilvægt sé að starfsemi hreyfingarinnar sé í góðri sátt við atvinnulífið og velta því upp hvort ekki megi nálgast þau markmið stjórnvalda að einfalda virðisaukaskattskerfið og ná í leiðinni því markmiði að bæta rekstrarumhverfi íþróttahreyfingarinnar. Varðandi þau sjónarmið að aflétta ábyrgð stjórnarmanna og annarra sjálfboðaliða á framtals- og skattskilum gæti verið skynsamlegt að skoða þá leið að hækka frímark varðandi skráningarskyldu á virðisaukaskattsskrá frá því sem nú er.

Til vitnis um ólíka stöðu hagsmunaaðila má vitna í umsagnir fjölmargra aðila knattspyrnuhreyfingarinnar og Knattspyrnusambandið sjálft þar sem lögð er áhersla á að frumvarpið nái fram að ganga. Þar kemur meðal annars fram að öflugur stuðningur við uppbyggingu íþróttamannvirkja sé ómetanlegur og sagan kenni að með slíkri uppbyggingu og aukinni fræðslu náist mikill árangur. Reynslan sýni einnig að árangurinn er jafn mikilvægur í smærri sem stærri samfélögum. Það er því öflug byggðastefna að bæta aðstöðu alls staðar á landinu.

„Foreldrar, iðkendur og aðrir sjálfboðaliðar leggja á sig ómælda vinnu við sölu á ýmsum varningi til að standa undir þeim kostnaði sem fylgir þátttöku. Yfirvöldum er fullkunnugt um þessa starfsemi og það er okkar álit að viðurkenna eigi mikilvægi hennar með undanþágu frá virðisaukaskatti og einfalda þannig rekstrarumhverfi íþróttafélaganna. Það yrði hvetjandi fyrir þessa aðila ef yfirvöld staðfestu mikilvægi þessarar starfsemi með undanþágu frá virðisaukaskatti.“

Virðulegi forseti. Við flutningsmenn áttum góðan fund með forustumönnum íþróttafélaga víðs vegar að af landinu og þeir áréttuðu, m.a. með ályktun, að það væri gríðarlegt hagsmunamál fyrir íþróttahreyfinguna alla að ríkið styddi við bakið á henni með því móti að gera bragarbót á löggjöfinni til að styrkja sjálfboðaliðastarfið og mæta aukinni eftirspurn með stuðningi við mannvirkjagerð. Þeir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þess efnis.

Frumvarpið er í fullu samræmi við stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar, eins og ég kom inn á, og þá íþróttastefnu sem í gildi er og snýr að einföldun á rekstrarumhverfi íþróttahreyfingarinnar og markmiðum um almenna lýðheilsu. Það er von okkar flutningsmanna að málið fái frekari ígrundaða umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og (Forseti hringir.) nái fram að ganga.