145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að minnast á friðargæsluna, en Rauði krossinn fer nokkrum orðum um hana í áliti sínu sem kom með málinu seinast. Við búum vel í þessu máli að þessu sinni að því leyti að umsagnir komu inn; að vísu ekki mjög margar, en fjórar. Eftir því sem ég fæ best séð eru þrjár neikvæðar og ein hlutlaus. Sú hlutlausa stingur upp á nokkrum breytingum sem mér sýnast langflestar til bóta.

Eitt af því sem Rauði krossinn stingur upp á er að í frumvarpinu verði áætlun um hvernig markmiðinu, um 0,7% af vergum þjóðartekjum, verði náð með skýrum og áfangaskiptum tímasetningum. Eins og við vitum hefur þessu markmiði ekki verið náð og ekki liggur fyrir nein áætlun um að ná því, þessu annars sjálfsagða markmiði sem við höfum, að mér skilst, skuldbundið okkur til þess að ná.

Með hliðsjón af því að þetta er ekki að finna í nýju útgáfunni að frumvarpinu þá skil ég þetta ekki alveg. Ef menn ætla að ná meiri skýrleika í nýtingu á fé, eða að búa þannig um starfið að það verði betur útskýrt hvernig fé sé nýtt, þá ættu menn að bæta einhverju slíku við, þá ættu menn að hlusta aðeins á umsagnirnar sem bárust í fyrra. Við erum núna í 1. umr. um þetta mál, en það bárust umsagnir í fyrra. Það eru þættir í þeim umsögnum sem eru algjörlega þess virði að hlusta á og taka tillit til, þar á meðal þessi ágæta tillaga sem mundi skýra hvernig fjármagninu yrði beitt en ekki gera það óskýrara, eins og, eftir því sem maður fær best séð, mun leiða af þessu frumvarpi.

Hvað varðar friðargæsluna þá er algjörlega rétt, held ég, hjá Rauða krossinum að það sé mikilvægt að halda því aðeins til haga þegar kemur að þróunarsamvinnu. Þó að þetta séu vissulega tengdir málaflokkar þá er mjög mikilvægt að þessu sé ekki ruglað saman. Rauði krossinn fer reyndar mörgum orðum um það — nú hef ég bar ekki meiri tíma til að tala um það, virðulegi forseti.