145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna þess að mér finnst áhugi hæstv. forsætisráðherra á gömlum húsum og menningarverðmætum vera farinn að hafa mjög óæskileg, ef ekki beinlínis hættuleg, áhrif á lagasetningu. Ég hef áhuga á gömlum húsum og menningarminjum og ég held að margir hafi það en öll umgjörð þeirra mála þarf að vera í samræmi við lýðræðisleg vinnubrögð og réttindi borgaranna. Á síðasta þingi fór því miður í gegn mjög einkennileg löggjöf um verndarsvæði í byggð sem felur hæstv. forsætisráðherra nánast alræðisvald þegar kemur að því að kveða upp úr um það hvaða byggð skuli vernduð. Það er tekið út úr skipulagslögum, það var mjög ólýðræðislegt, mjög ófaglegt og lyktar af gerræði.

Í gær las ég í fréttum að inn í væntanlegt frumvarp um breytingar á lögum um menningarminjar sé búið að lauma grein sem leyfir ráðherra að taka mannvirki, lönd og réttindi eignarnámi, allt í þágu verndar á menningarverðmætum. Klausan er mjög opin og allar viðvörunarbjöllur í mínum huga klingja við að lesa þetta. Með henni fær forsætisráðherra rétt til að taka mannvirki, lönd og réttindi eignarnámi fyrir hönd ríkisins til að vernda menningarminjar. Þetta lyktar af gerræði. Gæti forsætisráðherra til dæmis ákveðið að taka alla byggðina í Flatey, sem er yfir 100 ára gömul, eignarnámi ef honum sýndist svo? (Forseti hringir.) Ég hvet Alþingi Íslendinga, okkur sem hér sitjum, til að vera á varðbergi, standa fast í lappirnar gagnvart öllum gerræðistilburðum á þessu sviði. Þetta lyktar mjög hættulega.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna