145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er þörf umræða. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum áherslu á öfluga heilbrigðis- og velferðarþjónustu sem er fjármögnuð með skattfé og starfrækt á opinberum grunni þar sem allir njóta jafnræðis. Þess vegna eiga allir að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og lyfjum óháð efnahag, aðstæðum eða búsetu. Aðgengi að S-merktum lyfjum má ekki ráðast af öðru en faglegu mati lækna og alls ekki af fjárráðum viðkomandi sjúklings eða þeim fjölda sem þarf á lyfi að halda.

Það er þó ekkert launungarmál að lyfjakostnaður er einn þyngsti bagginn á rekstri nútímaheilbrigðiskerfa, einkum það sem lýtur að nýjum og dýrum lyfjum. Alþjóðlegir lyfjarisar eru nánast komnir á beit í velferðarkerfum samtímans. Sláandi dæmi um það rataði í heimsfréttirnar nú síðast í gær þar sem tiltölulega einfalt en lífsnauðsynlegt lyf sem meðal annars er gefið fárveikum alnæmissjúklingum átti að hækka um 5.000% í verði þegar nýr fjárfestir eignaðist fyrirtækið. Þetta dæmi sýnir okkur þá bjartsýni að halda að hinn frjálsi markaður leysi lyfjamálin. Við sem samfélag hljótum að leita leiða til að styrkja stöðu okkar, t.d. með því að leita samstarfs við norrænu ríkin varðandi sameiginleg lyfjakaup. Það er gott að heyra að hæstv. ráðherra tali fyrir því.

Á sama tíma hlýtur að koma til greina að hefja á ný lyfjaframleiðslu á vegum hins opinbera. Þá þarf ekki að eyða fjármunum í að flytja inn allra ódýrustu blöndur eða lyf og svigrúmið sem þar myndast er þá hægt að nota og eyða í flóknari og dýrari lyf.