145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það eru liðin sjö ár frá hruni, hruni sem hafði gífurlega mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf og fjölda einstaklinga og fjölskyldur í landinu. Atvinnuleysi jókst hratt, lán hækkuðu eins og enginn væri morgundagurinn og heimili landsins áttu sífellt erfiðara með að ná endum saman. Þetta gerði það að verkum að talsverður fjöldi missti heimili sitt og í of mörgum tilvikum heyrðist af splundruðum fjölskyldum vegna skilnaða og annarra áfalla sem dundu yfir.

Það er óhætt að halda því fram að þetta hafi verið erfiður tími fyrir margar fjölskyldur og þess vegna er með ólíkindum að heyra þegar nokkrir einstaklingar halda því fram að hér hafi í raun ekki orðið hrun. Því miður heyrum við einstaka sinnum fréttaflutning þess efnis þessa dagana. Það get ég bara alls ekki skilið vegna þess að enn þann dag í dag sjáum við anga hrunsins birtast.

Enn eru til dæmi um það að einstaklingar fái ekki úrlausn sinna mála og má þar nefna fólk með ólögmæt gengistryggð lán sem fær þau ekki leiðrétt.

Á þessu kjörtímabili hefur þó verið farið í 150 milljarða króna skuldaaðgerð fyrir heimili landsins. Um er að ræða beina niðurfellingu og séreignarsparnaðarleið. Þess má geta að í hverjum mánuði fara um 500 milljónir í formi skattafsláttar inn á verðtryggðar húsnæðisskuldir og sérstaka húsnæðissparnaðarreikninga. Auk þess eru frumvörp sem eiga að bæta ástandið á leigumarkaði að detta inn í þingið á næstu dögum.

Í morgunútvarpi Bylgjunnar heyrði ég viðtal við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson þar sem hann talaði um hversu erfitt það væri fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð. Hann talaði meðal annars um byggingarreglugerð og hátt lóðaverð í því samhengi. Ég er honum mjög sammála um að það eru þættir sem við verðum að endurskoða í allri þeirri húsnæðisvinnu sem er í gangi. Þetta var mikilvægt innlegg hjá hv. þingmanni.

Ég er hins vegar föst á því að við verðum að taka úr sambandi það vaxtaform sem heimilin búa við þegar þau fjárfesta í húsnæði, þ.e. verðtrygginguna. Það er stór lykill að bættu ástandi á húsnæðismarkaði.


Efnisorð er vísa í ræðuna