145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

[10:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessu er auðsvarað. Ég lít svo á að sú regla sé í gildi hér, og hafi alla tíð verið, að á ráðherrum hvíli sú skylda að segja þinginu satt og rétt frá í öllu því sem til þeirra er beint, einmitt í þeim tilgangi, sem hv. þingmaður nefnir hér, að þegar kemur til úrlausnarefna hér á þinginu geti þingmenn gengið út frá því að þær upplýsingar sem þeir fá frá framkvæmdarvaldinu séu traustar og réttar. Hvernig um þetta er búið í lögum er ábyggilega til umhugsunar og skoðunar, en ég hef litið svo á að sú regla sé nú þegar hér til staðar.