145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nefnilega sammála hv. þingmanni, það er ekki vendipunktur. Útsölustaðir hafa margfaldast á síðustu árum. Á sama tíma höfum við blessunarlega náð miklum árangri í baráttunni gegn áfengisneyslu unglinga sér í lagi. Vissulega hefur neyslan aukist, en stóra ráðgátan í þessu máli er — ég er ekki að vera kaldhæðinn þegar ég segi það, mér finnst það raunveruleg ráðgáta — hvers vegna enginn vill fara til baka. Enginn hefur stungið upp á því að við fækkum vínbúðum. Enginn hefur stungið upp á því að banna bjór. Bjór var bannaður hérna en síðan var hann gerður heimill. Enginn vill fara aftur til baka til þeirra ára en samt voru sömu spárnar. Væntanlega, ef einhver hefði stungið upp á því fyrir 15 árum að sjöfalda fjölda vínbúða þá er ég alveg viss um að allar umsagnir frá læknasamfélaginu mundu segja að það væri stórhættulegt. En samt höfum við náð árangri. Það er staðreyndin sem eftir stendur.

Það sem ég er að benda á eða reyna að benda á er að þetta er mögulegt. Ég er ekki að segja að við séum að ná árangri vegna aukins fjölda verslana. Ég er að segja: það er mögulegt. Ef við beitum aðferðum sem miða að því að gera hvort tveggja í einu, auka frelsið og takast á við vandann, þá getum við náð (Forseti hringir.) miklum árangri í þessum málum.