145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Nei, ég misskildi ekki hv. þingmann, herra forseti. Ég túlkaði orð hans alls ekki með þeim hætti að hann væri andsnúinn frumvarpinu. Ég veit að hv. þingmaður er með kjarkaðri þingmönnum en ég tel ekki að hann sé orðinn svo dreissugur að hann leggi í það við 1. umr. að leggjast gegn frumvarpi sjálfs hæstv. forsætisráðherra um íslenska þjóðfánann, þó ekki væri.

Ég trúi í fyrsta lagi á verkaskiptinguna og er þeirrar skoðunar að betur sjái augu en auga. Af því að hv. þingmaður hefur velt upp margvíslegum spurningum sem allar eiga rétt á sér og allar er vert að skoða þá fyndist mér alveg eðlilegt í svona máli, sem þrátt fyrir allt varðar grundvallarþátt í íslensku lífi, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mundi líka senda þetta mál til umsagnar til dæmis hjá atvinnuveganefnd og eftir atvikum utanríkismálanefnd. En ég ætla ekki að gera neina sérstaka kröfu um það.

Ég treysti nefndinni alveg til þess að fara í þau mál sem hv. þingmaður benti á að þyrfti að skoða. Þetta er 1. umr. Þingmál koma hingað misjafnlega vel úr garði gerð og menn hafa oft og tíðum, margvíslegar skoðanir, ég tala nú ekki um á málum sem varða þjóðfánann, og sjálfsagt er að skoða það allt saman út í hörgul. Það er best gert með því að fá fleiri nefndir, eins og er alsiða í vinnu þingsins, til þess að skoða svona mál undan ýmsum hornum.