145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni að þessi málaflokkur sé æ oftar til umræðu enda löngu kominn tími til. Eins og annar hv. þingmaður sagði réttilega hér í pontu áðan þá er Ísland mjög lokað land. Ef Evrópa er undanskilin þá er mjög erfitt að flytja til Íslands. Jafnvel þó að maður sé Bandaríkjamaður eða Kanadamaður, jafnvel þó að maður sé tiltölulega vel menntaður, þá getur það verið mjög erfitt. Það er vegna þess að meginreglan á Íslandi er og hefur verið sú, frá upphafi eftir því sem ég fæ best séð, að landið er lokað, að fólk megi ekki flytja hingað nema ef við höfum sérstakan hag af því eða ef við þurfum á því að halda; nema ef það er spurning um pyndingar og morð.

Við eigum að vera opnara samfélag almennt, ekki bara þegar kemur að flóttamönnum og hælisleitendum, þó þar sérstaklega, heldur almennt. Fólk er fjársjóður, mannafl er jákvæður hlutur og við eigum ekki að láta eins og þetta sé einhver afgangsstærð í heiminum sem við þurfum að halda utan landsteinanna. Þvert á móti, við eigum að nýta þau tækifæri sem við höfum og það veit almættið að þau eru til staðar.