145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér er þetta ekki alveg sanngjörn spurning gagnvart manni sem er ekkert að velta því fyrir sér hvort frumvarpið hafi verið unnið nógu vel til þess að rétt sé að leyfa þetta því að ég er á móti því og væri það jafnvel þó að ég teldi að menn væru búnir að hnýta enn betur ýmsa lausa enda í löggjöfinni. Ég held að þetta sé ekki rétt hugmyndafræðilega og siðferðilega. Það skiptir mig ekki öllu máli í þeim efnum, varðandi þá grundvallarafstöðu mína, hvort fleiri eða færri göt eru eftir, fleiri eða færri lausir endar í frumvarpinu, en þeir eru þó til staðar. Við fljótan yfirlestur á því sér maður víða að þrátt fyrir góða viðleitni þá eru lausir endar. Það er ekkert farið alla leið með það ef eitthvað kemur upp á af því tagi sem ég nefndi í dæmi mínu.

Staðgöngumæðrun að hluta, þ.e. þegar menn eru í raun og veru að leggja til erfðaefnið að hluta til, vekur náttúrlega upp miklar spurningar og út af fyrir sig báðar útgáfurnar, líka full staðgöngumæðrun. Við skulum ekki gleyma einu sem ég hafði ekki tíma til að koma inn á ræðu minni, það eru börnin. Menn eru að reyna að færa inn ákvæði um að þau eigi samt sem áður vissan rétt á því að vita hvernig þau eru til komin, að það eigi helst fyrir sex ára aldur að gera þeim grein fyrir því hvernig þau eru í heiminn komin og þau eigi síðan sjálf við 16 ára aldur rétt á aðgangi að gögnum. Það getur orðið skrýtin tilvera hjá barni sem þannig er til komið að átta sig á því að lífmóðir þess eða erfðafræðileg móðir seldi líkama sinn til að ganga með það í einhverjum þrengingum og hörmungum, ef svo væri.

Ég held að þetta mál sé miklu dýpra en það. Ég hef ekkert á móti því að svara spurningum hv. þingmanns varðandi tæknileg atriði og hvort nógu vel sé búið að sjá fyrir endann á þessu eða hinu, en það mun væntanlega ekki breyta grundvallarafstöðu minni. Ég tel að nálgunin í upphafi sé (Forseti hringir.) ekki rétt.