145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[16:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er kunnuglegur hljómur í orðræðu hv. þingmanns sem hér talaði á undan. Tölum um þetta seinna, tölum um eitthvað annað núna. Seinna getum við talað um verðtrygginguna væntanlega þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem er á móti afnámi verðtryggingar, er búinn að meðhöndla málið. Ég velti því fyrir mér hvort sömu hv. þingmenn mundu treysta þessari ríkisstjórn til að ganga inn í ESB, vegna þess að þá er talað um hinn pólitíska ómöguleika, en hér er ætlast til þess að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sinni verkefni sem hann er í grundvallaratriðum á móti eins og jú svo margir aðrir.

Þessi orðræða að tala sífellt um það að við eigum að tala um eitthvað annað núna — kjörtímabilið er hálfnað, virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Karl Garðarsson bendir á, kjörtímabilið er hálfnað og hæstv. forsætisráðherra, eftir að hafa beðið um skýrslu og fengið skýrslu, er ekki einu sinni farinn að ræða það við þingið. Það er staðan sem við stöndum frammi fyrir núna. Hún er ótæk, sér í lagi í ljósi kosningaloforða Framsóknarflokksins, en sömuleiðis er þetta bara spurning um einfaldar þingskyldur hæstv. forsætisráðherra.