145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það sem mér finnst blasa við í þessari stöðu er einfaldlega það að þvergirðingsháttur, hunsun á eðlilegum beiðnum, virðingarleysi, það að segja ekki neitt, mæta ekki til sérstakrar umræðu ef um hana er beðið af augljósum ástæðum, það viðhorf mun alltaf leiða til sóunar á tíma okkar allra og leiðinda. Ég vil leyfa mér að biðja hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson af því að hann hlær að þessu að ímynda sér aðra sviðsmynd. Hvað ef hæstv. forsætisráðherra hefði bara mætt til umræðunnar þegar um hana var beðið? Hún hefði tekið hálftíma, farið hér fram og eflaust verið mjög fróðleg og hæstv. forsætisráðherra hefði getað útskýrt viðhorf sitt til þessara mála og við stæðum ekki hér og værum að fara yfir það af hverju níu mánuðir hafa liðið frá því þessi beiðni var lögð fram. Aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa (Forseti hringir.) komist að þeirri niðurstöðu að auðvitað borgar sig fyrir alla, til þess að við séum ekki að sóa tíma fólks, að verða (Forseti hringir.) fljótt og vel við beiðni um sérstaka umræðu og auðvitað á hæstv. forsætisráðherra að gera það líka. Ég segi já.