145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:49]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka frummælanda fyrir að vekja máls á þessu efni. Mig langar einnig til að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og að útskýra að þetta er ekki einfalt mál. Þarna er um að ræða eignarrétt og almannarétt og hvar mörkin liggja þar.

Það er síðan líka spurning hvenær náttúruperla er náttúruperla. Það er ekkert sem segir í lögum og skilgreinir það hvenær náttúruperla er náttúruperla og hvenær má þá rukka fyrir hana og hvenær ekki. Það þykir hins vegar eðlilegt í flestum löndum í kringum okkur og víðar að rukkað sé inn á ákveðin svæði sem þurfa ákveðna umgengni og ákveðna vernd. Það er verið að rukka inn á þjóðgarða þar sem fólk ferðast um, t.d. í Nepal og víðar. Ég man eftir því að hafa þurft að borga mig inn í Persepolis í Íran og Ani í Tyrklandi og það þótti ekkert tiltökumál. Þarna er oftast verið að veita einhvers konar þjónustu, hvort sem um það er að ræða að vernda umhverfið í kring fyrir ágengni eða veita grundvallarþjónustu eins og að viðhalda vegum og hreinlætisaðstöðu. Og þetta kostar allt saman.

Mér finnst ekkert óeðlilegt að við séum að komast á þann stað sem nágrannalönd okkar eru, einfaldlega að stíga það skref að rukka fólk sem vill fara inn á ákveðin svæði út af því að þau þykja sérstaklega áhugaverð. Ekki er þar með sagt að þau séu endilega sérstakari en önnur svæði. Við getum farið víða og skoðað náttúruperlur þótt þær séu ekki skilgreindar sem slíkar í ferðamannabæklingum. Þetta er mjög afstætt og þetta er mjög flókið mál, miklu flóknara en að almannarétturinn eigi að trompa allt, að því er mér finnst.

Þetta er líka spurning um eignarrétt. Þetta er líka spurning um vernd og þetta er spurning um það hvernig við finnum einhverja millileið hver sem hún verður.