145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

áfengis- og tóbaksneysla.

217. mál
[16:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis þessa umræðu, hún er gagnleg og góð. Ég vil hvetja þingmenn til þess að ræða allar hliðar málsins. Það er margt mjög merkilegt í rauninni sem hefur gerst í þessum málaflokki eins og hv. þingmaður hafði orð á hér. Embætti landlæknis heldur og hefur haldið mjög vel utan um þessa þætti. En ef við berum saman t.d. áfengi og tóbak er tóbak í frjálsri sölu alls staðar um allt samfélagið, í hverri búðarholu sem fyrir finnst, en þar höfum náð mjög markvisst að draga úr neyslu, mjög massíft, svo til fyrirmyndar er eins og hv. þingmaður nefndi að árangur Íslendinga í þeim efnum hefur vakið gríðarlega athygli.

Þegar maður horfir síðan á áfengisneyslu, hvernig hún er að breytast, í Talnabrunni sem kom út núna fyrir helgina þá er mjög merkilegt að sjá þar að áfengisneysla hefur dregist saman frá árinu 2007 þegar hún var 7,5 lítrar af hreinum vínanda á mann, en á árinu 2014 er hún 7,2 lítrar af hreinum vínanda á mann. Þetta gerist þrátt fyrir fjölgun útsölustaða, miklu fleiri vínveitingaleyfi og fjölgun ferðamanna. Fyrst og fremst erum við að ná þessu að mínu mati með markvissri vinnu þeirra sem starfa að forvörnum og meðferð þeirra sem glíma við vanda í þessum efnum. Ég tel skilyrðislaust að við getum gert betur í þeim efnum. Hluti af því að ná betri tökum á þessu, fyrir utan forvarnir og meðferðarstarfið, eru líka atriði sem lúta að því hvernig við stýrum neyslu og er þá nærtækast að horfa til verðlagningar eða gjaldtöku af sölu þessa löglega vímuefnis sem ríkið hefur lagt blessun sína yfir.