145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015. Hæstv. fjármálaráðherra fór í framsögu sinni ágætlega yfir tilgang þess. Margir hv. þingmenn hafa jafnframt farið yfir helstu liði sem bæði hafa áhrif á fjárlögin og ríkisfjármálin þetta árið og þau álitamál sem vissulega verða alltaf uppi þegar kemur að óvæntum liðum sem taka þarf tillit til.

Það verður alltaf að rýna í fjáraukalögin undir þeim formerkjum hvað í þeim felst, þ.e. að um óvænta liði sé að ræða, eða eins og það er orðað í lögunum um fjárreiður ríkisins, að í fjáraukalögum innan fjárhagsársins verði leitað eftir heimildum fyrir þeim fjárráðstöfunum sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga, að slíkar ráðstafanir nái sannarlega til óhjákvæmilegra málefna, ófyrirséðra atvika eins og sannarlega eru dæmi um — má nefna áhrif kjarasamninga í því tilliti — en um leið að slíkar ráðstafanir nái ekki til nýrra áforma eða nýrra verkefna eða séu einhvers konar uppgjör á rekstrarhalla einstakra stofnana. Það er mikilvægt að slík mál komi þá inn í fjárlagaumræðu fyrir næsta ár sem er þá 2016.

Það er örugglega ýmislegt sem hefði mátt áætla og sjá fyrir í þessu frumvarpi, þar á meðal útgjaldaliðir sem hafa komið fram í umræðunni. Ég ætla ekki í þessari ræðu hér að fara ítarlega í einstaka liði. Ég treysti á það að í kjölfar umfjöllunar hv. fjárlaganefndar fyrir 2. umr. verði hægt að fá meiri og betri útskýringar á því og draga fram hvaða rök búa að baki frávikum í áætlanagerð. Það er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram.

Hér hafa verið nefnd atriði eins og tekjumegin arðurinn af sérstaklega Landsbankanum sem útskýrir helminginn af þeim tekjuauka sem fram kemur í frumvarpinu og svo hefur verið talað um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Af tvennu illu er varfærni á tekjuhliðinni illskárri og á móti raunsæi á gjaldahliðinni. Því raunsærri sem áætlunin er, þeim mun betra er það og saman fer agi og raunsæi í þeim efnum. Að efni til verða þær forsendur að vera til staðar að um endurskoðaða tekjuáætlun sé að ræða og tillögur um breytingar á fjárheimildum ýmissa fjárlagaliða og það sé þá í fullu samræmi við það sem getið er um í frumvarpinu.

Hér verður að taka tillit til endurmetinnar þjóðhagsspár sem er að vænta í nóvember, að þá þurfi mögulega að gera viðeigandi breytingar á tekjuhlið frumvarpsins. Eins og við rýnum frumvarpið hér byggir það á þjóðhagsspá Hagstofunnar sem unnin var í júní síðastliðnum. Þá er um leið mikilvægt að hafa í huga þegar rýnt er í forsendur frumvarpsins og þær breytingar sem koma fram á tekju- og gjaldahlið að fjárhagsáhrifin á ríkissjóð í tengslum við losun hafta eru ekki tekin með í reikninginn. Án þess að ég ætli að fjölyrða neitt um það hér og nú má ætla, miðað við það sem þegar liggur fyrir og hvert stefnir, að fjárhagsleg áhrif á stöðu ríkissjóðs af þeim ráðstöfunum verði töluverð og birtist, ef allt fer að óskum, í fjárlögum fyrir árið 2016.

Framkvæmdin er ekki í garð gengin í þessum töluðu orðum og því ætla ég ekkert, eins og ég segi, að fjölyrða um það. Það er ljóst að áhrifin verða veruleg þó að mál kunni að þróast þannig, þótt ólíklegt sé úr þessu að það gerist að einhverju marki á þessu ári.

Þá er þess jafnframt getið að endurmeta þurfi hækkanir á launakostnaði þeirra ríkisaðila sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði með tilliti til gerðardóms í málum Fíh og BHM frá því í ágúst, ásamt þeim kjarasamningum sem við getum sagt að hafi fallið til á seinni hluta þessa árs. Eðli máls samkvæmt þarf að taka tillit til þeirra sem munu þá koma til útgjaldaauka frá því sem kemur fram í þessu frumvarpi.

Ég ætla aðeins að rýna í þær tölur sem koma fram á tekjuhlið og heildarsamhengi stærðanna og staldra við það sem stingur fyrst í augu þegar maður rennir yfir yfirlitið og helstu stærðir. Það er mjög jákvætt að sjá í tekjuyfirliti A-hluta ríkissjóðs að tekjur aukast um 26,4 milljarða frá því sem var lagt upp með í gildandi fjárlögum. Þar munar mest um skatta á tekjur og hagnað, það er aukning um 15,8 milljarða frá gildandi tekjuáætlun fjárlaga. Sú tala er jákvæð að því marki sem hún snýr að hagstæðri framvindu efnahagsmála þar sem betur gengur í atvinnulífinu sem kemur fram í því að bæði lögaðilar og einstaklingar greiða meira en ráð var fyrir gert. Þá er ég ekki að tala bara um þann arð sem varð verulega meiri af bönkunum, aðallega Landsbankanum.

Hér má vissulega sjá vísbendingu um að skattstefna ríkisstjórnarinnar sé að skila sér í heilbrigðara atvinnulífi og háu atvinnustigi. Það hlýtur að vera markmið hverrar ríkisstjórnar að halda uppi fullri atvinnu, að allir hafi möguleika á atvinnu og geti séð fyrir sér og sínum. Það má meðal annars lesa úr þessum tölum sem er jákvætt þegar litið er til markmiða og stefnu í efnahags- og skattamálum. Þessi hagþróun útskýrir stóran hluta af þessum tölum en fyrst og fremst er þó um að ræða af heildarstærðinni auknar arðgreiðslur af starfsemi bankanna, fyrst og fremst Landsbankans.

Hér hefur orðið þó nokkur umræða um samfélagsbanka. Ég ætla ekki að ræða það mál frekar í þessari ræðu. Hins vegar finnst mér sú umræða oft og tíðum án fullrar skilgreiningar. Þó var hér fyrr í dag ágætisumræða sem fór nærri skilgreiningu á því hvað samfélagsleg ábyrgð í raun og veru þýðir í slíkum rekstri. Ég get nefnt í því tilliti að auðvitað voru sparisjóðirnir samfélagsbanki í því tilliti þar sem lagt var í sérstakan sjóð sem hafði beint það markmið að vinna með nærsamfélaginu og til samfélagslegra verkefna.

Hingað til hef ég aðallega rætt tekjuhliðina og stöðuna í atvinnulífinu þar sem augljóslega gengur betur sem birtist í auknum tekjum en það er athyglisvert að sjá að sú þróun kemur ekki fram í virðisaukaskattinum. Það er vissulega áhyggjuefni og auðvitað ástæða til að skoða og rannsaka frekar.

Í frumvarpinu er nánar farið yfir þennan lið á bls. 51 þar sem fjallað er um skatta á vöru og þjónustu. Þar kemur meðal annars fram að tekjur af virðisaukaskatti lækka um 2,4 milljarða og er hann því augljóslega ekki að skila sér í neinum takti við aukin umsvif á meðan aðrir skattar eru í samræmi við það sem áætlað var. Frá þessu er greint og helst tekið til að þetta er þróun sem þekkist víðar og fleiri lönd hafa upplifað. Það er athyglisvert að þetta frávik með virðisaukaskattinn á sér hvorki skýringar í fráviki frá efnahagslegum forsendum né öðrum augljósum orsökum og er því dæmi þar sem tiltekið er um endurgreiðslur virðisaukaskatts. Þær eru fyllilega í samræmi við áætlunina þannig að skýringuna er ekki að finna þar. Sú skýring sem dregin er fram og vitnað til af reynslu annarra þjóða og rannsókna er að virðisaukaskatturinn hafi þann eiginleika að næmnin gagnvart hagsveiflunni sé mikil og ósamhverf, sé meiri í niðursveiflu en uppsveiflu, og gerist þannig að tekjurnar lækki hratt í niðursveiflu en aukist hægar í uppsveiflunni, að hegðunarmynstrið sé tregbreytanlegt til baka frá því sem var frá samdráttar- og kreppuskeiði.

Svo má auðvitað velta fyrir sér hvað veldur í raun. Auðvitað eiga allir að fara að lögum og skila sköttum. Ég tel ástæðu fyrir nefndina til að kalla eftir því hvort ekki verði leitað frekari skýringa á þessari þróun.

Á útgjaldahlið eru tillögur að breytingum heimilda frá því sem áætlað var til þess að mæta breyttum forsendum og ófyrirséðum útgjöldum. Í frumvarpinu er aukning fjárheimilda um 9,4 milljarða nettó sem svarar til 1,4% hækkunar frá heildarútgjöldum gildandi fjárlaga. Sundurliðun þessara útgjalda til hækkunar og lækkunar er að finna í töflu á bls. 55 og þar vegur þyngst til aukningar endurmat útgjalda sjúkratrygginga, einkum lækniskostnaðar. Þar er hækkun sem nemur 2,1 milljarði. Þetta dreifist á nokkra liði. Ég vil þó vekja athygli á töflu á bls. 46 sem sýnir athyglisverðan árangur í raun og veru frá 2009 þar sem frávik — sem er mikilvægt þegar við erum að ræða fjáraukann og hefur komið fram í ræðum, að agi í ríkisfjármálum er mikilvægur og nákvæmni og raunsæi í áætlanagerð fylgir þar með. Það er athyglisvert að sjá þessa mynd vegna þess að í raun hefur verið ágætisárangur hér frá 2009 þar sem oftast er erfitt að eiga við frávikin sem við sjáum að eru vegna breyttra forsendna, verðlagsbreytinga, kjarasamninga og þá mögulega lífeyrisskuldbindinga sem fylgja. Fram að árinu 2009, viðmiðunarárið 2008 er oft til umræðu, eru frávikin sýnu meiri í mikilli uppsveiflu og góðæri. Það er í hagsögulegu tilliti mjög athyglisvert og vert frekari umræðu. Það er reyndar ekki úr háum söðli að detta á því tímabili og ég held að við viljum ekki fara þangað aftur.

Hér hefur verið rætt um frumvarp til laga um opinber fjármál. Ég tek undir að margt í því frumvarpi stefnir til bóta og er þverpólitísk samstaða um að margt í því ágæta frumvarpi gæti hjálpað til til framtíðar með aga og raunsærri áætlanagerð.

Hér hefur verið komið inn á breytingar á heimildum. Ég ætla að nýta þann stutta tíma sem ég á eftir af ræðu minni til að koma inn á þessar heimildir. Fyrst er að nefna það sem kemur fram í breytingum á 6. gr. fjárlaga þar sem er viðbótarheimild um að ríkið greiði fyrir stofnfé í Innviðafjárfestingabanka Asíu. Ég skal viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég þekki starfsemi þessa banka ekki til hlítar. Þetta er drjúg fjárhæð og útskýrð frekar á bls. 63 í frumvarpinu en ég sakna þó frekari rökstuðnings. Ég kem því bara á framfæri beiðni um frekari rökstuðnings fyrir þessari heimild verði leitað hjá hv. fjárlaganefnd. Það sem ég sé þó jákvætt í þessu er ef þetta verður til þess að aðstoða verktakafyrirtæki í auknum verkefnum á erlendri grundu þar sem við getum nýtt þekkingu okkar, bæði fyrir fyrirtæki og vinnuafl. Auðvitað er mjög mikilvægt að skoða það. Ég get síðan ekkert mat lagt á það hversu mikilvægt það er (Forseti hringir.) að þessi hlutur sé seljanlegur eða hversu seljanlegur hann er. Ég bíð spenntur eftir frekari rökstuðningi fyrir 2. umr. þessa máls.