145. löggjafarþing — 34. fundur,  16. nóv. 2015.

fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins.

323. mál
[18:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Fyrst um hvert hlutverk fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins sé, þá er það svo að samkvæmt reglum um nám í mjólkuriðnaði nr. 1150/2006 er fræðslunefnd í mjólkuriðnaði ætlað að hafa umsjón með námi nemenda í iðninni og er tilhögun námsins lýst nánar í þeim reglum. Hvað varðar umboð fræðslunefndar mjólkuriðnaðarins og þá spurningu hvort áætlað sé að endurnýja umboð nefndarinnar, þá er rétt að taka fram að skipunartími fræðslunefndar í mjólkuriðnaði er útrunninn eins og fram hefur komið og hefur verið leitað eftir tilnefningum í nefndina hjá starfsgreinaráði matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina. Nefndin verður endurskipulögð jafn skjótt og tilnefningar berast.