145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar rætt er um búnað lögreglu og óskað eftir því að lögreglan beri vopn verða að liggja fyrir gögn og greiningar sem styðja nauðsyn þess og ef þau gögn eru trúnaðarmál er óásættanlegt annað en að þau verði kynnt með trúnaði, a.m.k. í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Þegar kallað er eftir auknum valdheimildum lögreglu er rétt að vara við því að grípa til skerðingar á persónufrelsi einstaklinga þó að sérstakar aðstæður skapist tímabundið.

Ég hef reyndar meiri áhyggjur af þjónustu lögreglunnar við íbúa landsins, þjónustu sem hvorki krefst vopna né sérstakra valdheimilda sem hún hefur ekki nú þegar. Með fjölgun ferðamanna og afskiptum lögreglunnar af þeim, t.d. vegna dauðsfalla og slysa, er hætta á að öryggi íbúanna sitji á hakanum því að lögreglumönnum hefur ekki fjölgað í takt við fjölda mála.

Ég spurði hæstv. innanríkisráðherra á dögunum hversu mörg lögreglumál tengd erlendum ferðamönnum hefðu verið árlega í hverju lögregluumdæmi fyrir sig árin 2005–2014. Svarið er athyglisvert og má nálgast á vef Alþingis. Lögreglumálum hefur fjölgað langmest á Suðurlandi þó að mikið álag sé á lögregluna um allt land. Í svari hæstv. ráðherra kemur fram að málum fjölgaði í næstum öllum umdæmum á árunum 2012–2015 og á sama tíma var fjölgun ferðamanna gífurleg. Á Suðurlandi voru mál vegna einstaklinga með erlenda kennitölu 121 árið 2012, en málin voru orðin 328 fyrstu átta mánuði þessa árs. Við þessu verður að bregðast með fjölgun í lögreglunni því að annars er hætta á því að ekki verði tekið með viðunandi hætti á heimilisofbeldi eða auðgunarbrotum og að forvarnastarf lögreglunnar verði af skornum skammti svo dæmi séu tekin og íbúarnir í landinu líði fyrir ástandið.