145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einmitt það sem við höfum verið að reyna að átta okkur á í umræðunni, þ.e. út á hvað breytingin gengur. Hverjir eru kostirnir og hvað gengur mönnum gengur til? Menn leita skýringa.

Það er alla vega ljóst samkvæmt mati á frumvarpinu að það verður engin hagræðing vegna breytinganna. Ef ég man rétt verður enginn beinn fjárhagslegur ávinningur af því að færa starfsmennina inn í ráðuneytið. En hins vegar gæti orðið hagræðing að því fyrir ráðuneytið að fá fleiri hendur til þess að vinna verkin, eins og ég sagði áðan.

Í svona stöðu fer maður að geta sér til um hvað er þarna á ferðinni. Ég held að hæstv. ráðherra hafi gripið tillögur hagræðingarhópsins, þó að hann hafi látið eins og hann vissi ekki að þær væru til, til þess að styrkja stöðu ráðuneytisins, til þess að fá fleiri hendur til að vinna verkin. Það er staðreynd að utanríkisráðuneytið fékk á sig mun meiri niðurskurð en önnur ráðuneyti og meiri hluti fjárlaganefndar lagði til aukinn niðurskurð á milli umræðna, ég man nú ekki hvort það var fyrir 2014 eða 2015, sennilega í fjárlögum 2014, á stjórnsýslu ráðuneytanna um 5%, en rúm 7% á utanríkisráðuneytið. Á síðasta kjörtímabili var náttúrlega niðurskurður alls staðar á stjórnsýsluna og þar var gefið í eftir að við vorum farin að rétta úr kútnum (Forseti hringir.) og skila afgangi í ríkissjóð.