145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þó að hún hafi kannski ekki snúið beint að málinu sneri hún að því á þann veg að þingmaður var að fara yfir skyldur ráðherra til að taka þátt í þeirri málstofu sem Alþingi er. Mér fannst ágætt að rifja það aðeins upp en það kemur líka fram í þingsköpum til hvers er hægt að ætlast af ráðherrum.

Ég verð út frá þessu að inna hv. þingmann eftir þeirri lýðræðislegu umræðu sem hér hefði átt að fara fram en gerir það ekki nema að takmörkuðu leyti þar sem meiri hlutinn hunsar skoðun minni hlutans, hvort hún sé sammála mér um að það sé niðurstaðan að meiri hlutinn komi ólýðræðislega fram. Og svo líka, í ljósi þess sem hún fór yfir, hvort ráðherra leyfi sér að túlka reglurnar sem starfa á eftir, hvort hann hafi sjálfdæmi um það hvort hann er viðstaddur til að svara spurningum eða ekki.

Maður veltir því fyrir sér að það er enginn rökstuðningur fyrir þessu máli af hálfu ráðherra, eða mjög takmarkaður. Ég spyr hv. þingmann því út í þessa lýðræðislegu aðkomu og sjálfdæmi ráðherra, hvort hún telji að það falli inn í það sem hún var að lesa, hvort það ætti þá jafnvel að vera þannig að meiri hlutinn væri sterkari eða ráðherrann ekki með atkvæðisrétt, hvort aðskilja ætti framkvæmdarvaldið frá þinginu. (Forseti hringir.) Það er ein leið til að málin fái örlítið lýðræðislegri umræðu hér á þinginu.