145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er kannski þetta sem er einkennandi fyrir ríkisstjórnina, þetta samráðsleysi í átakamálum. Þar má nefna Þróunarsamvinnustofnun og Evrópusambandsmálið — hlutunum er skellt fram og það skiptir engu máli hvað mönnum finnst, ég ætla að gera þetta af því að ég get það.

Mig langar að velta upp með hv. þingmanni því sem ég hef rætt töluvert í þessu máli, þ.e. gagnsæi. Eins og ferlið er núna er mikið gagnsæi ríkjandi í starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar, bæði er varðar alla verksamninga, eftirlit og úttektir, allt eru þetta opinber gögn. Ég hef áhyggjur af því að ef þetta rennur inn í ráðuneytið hverfi gagnsæið.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún taki undir það sjónarmið að slíkt geti gerst. Eins og hér hefur verið rakið í umræðunni hefur Ríkisendurskoðun sagt að það sé hæpið að endurskoða sérstaklega einhverja starfsemi inni í ráðuneytinu. Það hefur ekki verið gert. Þess vegna hefur maður efasemdir um að þetta verði eins mikið uppi á borðum og er í dag. Það eitt og sér finnst mér gríðarlega mikil rök.

Við viljum auka gagnsæi stjórnsýslunnar. Við viljum hafa hana sýnilegri og opnari. Með þessu er verið að loka þetta af að mínu mati. Ég spyr þingmanninn hvort hún sjái annan flöt á því en ég.