145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ábendingar hennar. Kannski er það það sem hefur fengið hæstv. utanríkisráðherra til að koma og sitja hérna með okkur við þessa umræðu.

Mig langar að spyrja hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur út í 3. gr. þar sem verið er að ræða um þróunarsamvinnunefndina. Nú er það svo í dag að Alþingi kýs sjö fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd og svo tilnefnir ráðherra einhverja fulltrúa í þá nefnd. Nú er verið að breyta þessu. Meðal annars eru þau rök færð fyrir því að Þórir Guðmundsson hafi í skýrslu sinni bent á að starfsemi þróunarsamvinnunefndar hafi verið tilgangslítil og að upplýsingar berist treglega til þingflokka Alþingis og samstarfsráðið fundi of sjaldan til að hafa mikil áhrif á stefnumótun í þróunarsamvinnu. Það virðast gilda sérstök lögmál um þróunarsamvinnu þannig að nú á að setja alþingismenn sjálfa í þessa nefnd. Það á að kjósa fimm alþingismenn og þannig eiga okkur þingflokkunum væntanlega að berast betur upplýsingar. Nú eru sex þingflokkar á Alþingi þannig að einhver þingflokkur eða einhverjir munu ekki eiga fulltrúa þarna. Ég veit þá ekki hvort hinir kjörnu alþingismenn ætla að koma reglulega á þingflokksfundi til þeirra þingflokka sem eiga ekki fulltrúa. En tekur þingmaðurinn undir að til þess að þingmenn fái betri innsýn í stefnu í málaflokkum og starfsemi stofnana þurfi þeir sjálfir að sitja í stjórnum og nefndum en ekki fulltrúar þeirra?