145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu. Mig langar að reifa aðeins það sem hann sagði hér um traust á stofnunum samfélagsins. Ég get tekið undir að það er áhyggjuefni hvernig slæleg vinnubrögð, bæði að hálfu framkvæmdarvaldsins en líka hér á Alþingi, geta haft þau áhrif að traust almennings á stofnunum samfélagsins dvínar. Það er áhyggjuefni fyrir lýðræðissamfélag, þar sem ríkja þarf ákveðið traust á grundvallarstofnunum, því að annars getum við ekki tryggt að lýðræðissamfélagið virki sem skyldi. Ég tek undir það með hv. þingmanni er lýtur að vinnubrögðum og tengingum þeirra við traust.

Málaflokkur þróunarsamvinnu sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir snýst um það hvernig við verjum fjármunum fjarri augum okkar sem erum hér í norðurhöfum. Við getum í flestum tilvikum fylgst með því hvernig fjármunum ríkisvaldsins er varið í nærsamfélagi okkar, en hér erum við að verja ákveðnum fjármunum fjarri okkur og skiptir mjög miklu að vel sé að því sé staðið. Hv. þingmaður nefndi það traust sem hefur ríkt á starfi Þróunarsamvinnustofnunar hingað til og ég vil spyrja í ljósi sérstöðu þessa málaflokks — sem í raun snýst um að leiðrétta ákveðið misrétti sem byggir á sögunni, misrétti sem byggir á arðráni vesturveldanna í ákveðnum heimshlutum, sem gerir að verkum að þar raðast ríki í hóp fátækustu ríkja heims á meðan hin sömu vesturveldi raða sér í hóp ríkustu ríkja heims — hvort hann telji að það kalli ekki líka á sérlega mikla aðgæslu í því hvernig við fjöllum um málaflokkinn.