145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir prýðilega ræðu. Ég held að við séum um margt mjög sammála í þessu. Hann talaði um úttekt á viðmiðum sjúkratrygginga. Ef ég væri í meiri hluta fjárlaganefndar hefði ég valið að gera rekstrarúttekt á sjúkratryggingum fremur en Landspítala, enda er það þar sem viðbótarfjárframlögin koma í löngum bunum og svo virðist sem þar sé verið að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu þar sem greining á þörfinni liggur ekki fyrir. Það langaði mig að segja um það mál.

En hv. þingmaður talaði mikið um fjármögnunina, fjármagn fylgir sjúklingi. Ég finn það að á heilsugæslunni hefur verið unnið að því að endurbæta starfsandann og blása fólki von í brjóst um að það sé að vænkast hagur og skipulagi breytt og slíkt. Ég held að það sé mjög jákvætt. Ég held að allir séu sammála um að það þurfi að breyta fjármögnuninni með einhverjum hætti. Ég vil einmitt taka undir það með þingmanninum. Ég tel að við eigum að skoða þessi mál og fjármögnunina. Við eigum ekki að fara í að breyta rekstrarformi hér. Ég tel að það eigi ekki að gera það yfir höfuð, en við eigum ekki að gera það að svo búnu.

Núna er fjársvelti fyrst og fremst vandi heilsugæslunnar. En við stöndum frammi fyrir því að fjármögnunin kemur ekki einu sinni til umræðu á Alþingi nema við reynum í stjórnarandstöðu að knýja það fram. Ég hef spurt út í rekstrarformið í fyrirspurn til skriflegs svars. En ég vildi eiginlega heyra viðhorf þingmannsins til þess að svo veigamiklar ákvarðanir eigi að taka án þess að þingið komi að því. Er það boðlegt?