145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég var ekki að þræta fyrir neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta snýst ekki um að gera mig ánægðan. Það snýst ekki um það þótt það væri miklu betra. Ég er sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni að það er miklu betra að við séum öll ánægð og þar á meðal ég. En þetta snýst ekki um það.

Ég var ekki að þræta fyrir að það væru settir peningar í Landspítalann. En má ég rifja það upp með hv. þingmanni að við kosningarnar 2009 fengum við Landspítalann gjaldþrota í hendurnar með 3 milljarða kr. gjaldþroti. Þá lýsti þáverandi forstjóri Landspítalans stöðunni þannig að spítalinn hefði hvorki átt fyrir launum né lyfjum og hún hefði leynt því fyrir starfsfólkinu. Hún hefði upplýst yfirboðara sína um það en hún hefði reynt að leyna því fyrir starfsfólkinu hversu alvarleg fjárhagsstaða Landspítalans var út úr góðærinu. Um áramótin 2008/2009 var 3 milljarða kr. gat. Það tókst þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra að gera á ekkert löngum tíma.

Ég er ekki að þræta fyrir að peningar hafi verið settir í Landspítalann, það hefur verið gert. En ég er að benda á að það er rangt sem haldið er fram af forustumönnum ríkisstjórnarinnar hér á þingi, sér í lagi foustumönnum fjárlaganefndar, að það hafi verið settir peningar í Landspítalann til að jafna eftir hrunið og það sé allt komið á blússandi ferð aftur. Það er enginn sammála því nema forustumenn fjárlaganefndar og þá hv. þingmaður. Enginn annar talar þannig. Enginn úr heilbrigðisgeiranum, enginn af Landspítalanum, enginn forstjóri nokkurrar einustu stofnunar talar þannig.

Ég vitnaði orðrétt, af því (Forseti hringir.) að ég vil hafa heimildirnar á hreinu, í þá sem málið varðar og það er enginn sammála ykkur um það sem þið segið, jafnvel þótt peningar hafi verið settir í Landspítalann á undanförnum árum.