145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að sumir þingmenn skeyti hvorki um skömm né heiður þings eða forseta lýðveldisins. Ég er ekki í þeim hópi. (Gripið fram í: Heyra þetta.) Á sínum tíma var það þannig að hv. þingmaður braut þingskapalög með því að hafna því að við þingmenn stjórnarandstöðunnar fengjum til fundar fulltrúa stofnana sem höfðu sent inn umsagnir. Það hefur aldrei gerst. Hér í húsinu krossuðu menn sig þegar þeir fréttu af þessu. Hún hafnaði þessu. Það má kannski segja að ég hafi í krafti reynslu minnar bjargað því sem eftir var af heiðri nefndarinnar með því að hafa frumkvæðið að því að þrír þingmenn notfærðu sér rétt sem þeir hafa samkvæmt síðustu breytingum á þingsköpum til að óska eftir því að fólk kæmi til fundar til að fjalla um tiltekið mál. Þetta er alsiða og menn gera það. Ég tel að ég hafi bjargað tætlunum af heiðri hv. þingmanns með því. (Gripið fram í.) En það er önnur saga.

Í ræðu hv. þingmanns kom fram mjög merkilegt efni. Nú bið ég hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur að leggja við hlustir. Í ræðunni sagði hv. þingmaður, og ég ætla að spyrja hana út í það, að með þessari breytingu vekti það líka fyrir stjórnarliðinu að samræma þróunarsamvinnu við önnur verkefni. Hvað er átt við með því? Getur verið að hér sé komið að kjarna málsins? Ég hef aftur og aftur borið það af hæstv. utanríkisráðherra, vegna þess að ég tel að hann sé vandaður maður þó að við séum pólitískt ósammála, að það kunni að vera að á bak við þessar breytingar liggi sú fyrirætlan að blanda þróunarsamvinnu til dæmis inn í utanríkisviðskipti Íslendinga. Ég hef sagt að ekkert slíkt telji ég að vaki fyrir hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) En hvað vakir fyrir hv. þingmanni þegar hún segir að þessi breyting sé gerð (Forseti hringir.) til að samhæfa þróunarsamvinnu við önnur verkefni? Getur virkilega verið að það eigi að fara (Forseti hringir.) að nota þróunarsamvinnu til að koma fram öðrum hagsmunamálum?