145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, ég er yfir höfuð ósátt við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og ekki bara í þessu máli heldur mörgum öðrum. Hún stendur afskaplega lítið við stefnuyfirlýsingar sínar um sátt og samvinnu.

Við höfum að sjálfsögðu skiptar skoðanir í pólitík og ólíka nálgun á málin. En hér finnst mér vera svo ótrúlega — hvað á ég að segja, ég vil ekki segja gott tilboð. En hér finnst mér við vera að nálgast ráðherra málaflokksins afskaplega vel og þykir mjög miður að það skuli nánast ekki vera rætt um þá samvinnu sem hv. þingmaður var að nefna, sátt sem þarf að ríkja um þennan málaflokk. Það olli mér miklum vonbrigðum að nefndin skyldi ekki láta skoða það mjög vel. Við vitum að ráðherra er mjög í mun að fá þetta inn í ráðuneyti sitt og þá hefði að sjálfsögðu þurft að eiga einhvers konar samtal við hann.

Mér finnst það óbilgirni að vilja ekki nálgast þetta á nokkurn hátt því að hér fær ráðherra, eins og kemur fram í nefndarálitinu, nánast allt sem hann hefur viljað gera og sagt að gæti orðið til batnaðar. Það skilar sér með þessari tillögu. Það sem er hins vegar öðruvísi í breytingartillögunni er að áfram er um sjálfstæða stofnun að ræða og það er eins og hann vilji það ekki. Þá fer maður auðvitað að velta því fyrir sér hvers vegna svo sé.