145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektirnar og svarið við þeirri spurningu sem ég setti fram. Ég segi fyrir mitt leyti við yfirferð á þessu máli um Þróunarsamvinnustofnun, sem er margverðlaunuð stofnun og hefur fengið mikla og góða úttekt hjá Ríkisendurskoðun, alþjóðasamtökum og fleirum, að þetta er alveg óskiljanleg ráðstöfun.

Ég styrkist í þeirri trú vegna þess hversu mikla áherslu hæstv. utanríkisráðherra leggur á þetta mál, hann leggur eiginlega bara allt undir til að ná sínu fram. Einhvern tímann hefði maður kallað það þrjósku eða þvergirðingshátt að þegar menn eru einu sinni búnir að taka ákvörðun skuli hún bara standa og þeir skuli ná henni í gegn sama hvað það kostar.

Þess vegna finnst mér það mjög undarlegt eftir þá miklu deilu sem búin er að standa um þetta mál að tillaga minni hlutans er tillaga til sátta varðandi ráðuneytisstofnun miðað við lög sem tóku í gildi í sumar, lög sem þessi ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar komu í gegnum Alþingi. Maður skyldi halda að það væri einhvern tilgangur með því, að það hafi ekki bara verið tilgangurinn að opna ráðuneytisskrifstofu ráðuneytisstofnunar húsameistara ríkisins í forsætisráðuneytinu til þess að reyna að pína okkur á Alþingi til að nota einhverja tillögu frá 1918 eftir Guðjón Samúelsson, þann mikla meistara, til að byggja við húsnæði Alþingis.

Það er óskiljanlegt að við skulum hafa eytt öllum þessum tíma í þessa deilu. Hún hefur eingöngu skapast af þráhyggju utanríkisráðherra að ljá ekki máls á neinu öðru en því sem hann hefur ákveðið. (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann. Getur hún tekið undir þau sjónarmið, fyrir utan það sem ég sagði áðan með fjárhagstillögurnar, sem ég held að sé eitt af veigamiklum atriðum?