145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst að þingmenn Framsóknarflokksins eru fullkomlega fjötraðir í þessu máli. Við heyrðum það best á dómadagsræðu hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur hér fyrr í dag, sem notaði helming af ræðu sinni til þess að fara í persónulegar árásir. Vitaskuld uppskar hún viðmót af sama toga. Fram að því hafði umræðan verið fullkomlega málefnaleg af minni hálfu, annarra og ekki síst hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem gerði mjög efnislega grein fyrir máli sínu og talaði með allt öðrum hætti en hæstv. ráðherra en þó sérstaklega hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sem hér í dag hélt áfram skelfilegri píslargöngu sinni í þessu máli. Það er ekki saman að jafna vinnubrögðum hennar, sem voru óskapleg og þinginu til vansæmdar, og vinnubrögðum hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem hélt sig, þegar upp var staðið, við þau lög sem bjóða okkur þingmönnum ákveðinn rétt.

En um það hvernig málið fer þá verður náttúrlega að undirstrika að hér hefur enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins flutt ræðu málinu til stuðnings, ekki einu sinni komið upp í andsvör. Það getur vel verið að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sé komin í salinn þeirra erinda að flaðra upp um hæstv. ráðherra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í þessu vitlausa máli. Hins vegar verð ég að segja það sjálfstæðismönnum til hróss að þeir hafa ekki einu sinni talað um að málið sé ágætt. Hv. þingmenn eins og Brynjar Níelsson, sem hafa skoðanir á öllum sköpuðum hlutum, hlaupa héðan út eins og hraktir hundar þegar þeir koma í salinn og heyra um hvað er verið að ræða. Þeim liggur við uppsölum út af þessu máli.

Við eigum ekki að hringla í málaflokkum eða stofnunum. Ef við komumst í ríkisstjórn eftir næstu kosningar eigum við ekki að segja núna að við ætlum að breyta þessu aftur vegna þess að við eigum að skoða hvort ótti okkar reynist (Forseti hringir.) réttur. Við skulum vona ekki. Við höfum alla vega rétt hér fram sáttarhönd sem hefur ekki bara (Forseti hringir.) verið slegið á heldur beinlínis bitið (Forseti hringir.) í af hálfu stjórnarliðsins.