145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka fram að í fyrsta lagi hygg ég að þetta sé mín síðasta ræða í umræðu um þetta mál og því vil ég endurtaka nokkur atriði, sér í lagi eitt, það að markmiðið með þessari breytingu er ekki að skaða það starf sem unnið hefur verið í þróunarsamvinnu. Þvert á móti ætlum við að reyna að búa til öflugra lið til að vinna að því að bæta, ef hægt er að bæta, starfsemi okkar þegar kemur að þróunarmálum. Mig langar líkt og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem talaði á undan mér, og það geri ég einlæglega, að þakka þingmönnum fyrir þann áhuga sem þeir hafa sýnt málinu, sér í lagi hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem talar hér fyrir þessu máli út frá heiðarleika sínum og trú á þennan málaflokk. Það geri ég reyndar líka en okkur greinir á um hvaða leið eigi að fara. Ég virði það svo sannarlega.

Mig langar að nefna biðlaun sem mig minnir að hv. þm. Kristjáni L. Möller hafi minnst á. Um þau gilda almennar reglur og það verður ekkert svínað á neinum um neitt slíkt ef menn kjósa þau. Ég tek það fram þannig að það liggi fyrir. Ég held að það sé alveg laukrétt sem fram hefur komið, m.a. hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég held, að Alþingi getur sett alls konar lög. Alþingi getur í sjálfu sér ákveðið að búa til ráðuneyti, stofnun eða hvaðeina inni í ráðuneyti. Það mundi að sama skapi stangast á við 17. gr. stjórnarráðslaganna sem er eitthvað á þá leið að ráðherra skipuleggi ráðuneyti sitt. Þá er Alþingi farið að setja ráðherra fyrir hvernig hann skuli skipa sitt ráðuneyti. Það getur vel verið eðlilegt í einhverjum tilvikum, ég ætla ekkert að segja að svo sé ekki, en að minnsta kosti þarf að hafa það í huga.

Það sem ég tel einna mest að þeirri tillögu sem hér kom fram og menn hafa sett fram örugglega í góðri meiningu sem sáttatillögu er að í henni felst að mínu mati mjög lítil breyting í sjálfu sér. Tillögurnar ganga út á að búa til áfram sjálfstæða stofnun en að vísu inni í ráðuneytinu. Það er ekki það samspil sem við vorum að reyna að ná með þeim tillögum sem hér hafa verið settar fram.

Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna.