145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni leggjum mikið upp úr fjölþrepa skattkerfi. Hið sama gerir verkalýðshreyfingin og það er ósvífið af fulltrúum stjórnarmeirihlutans að koma hér upp og eigna verkalýðshreyfingunni þá aðgerð sem hér stendur til að greiða atkvæði um. Þetta er hins vegar stjórnarstefna sem verkalýðshreyfingunni var kynnt að lægi fyrir og í kjölfar þess gerði verkalýðshreyfingin kjarasamninga, eins og hún þarf auðvitað að gera í samræmi við þá stjórnarstefnu sem mörkuð er. Þetta er óskynsamleg breyting á þessum tímapunkti, það hefði verið eðlilegra að verja þessu fé til að lækka tryggingagjald. Á sama tíma núna kvartar Seðlabankinn yfir því að ríkisstjórnin hjálpi ekki til við að halda aftur af þenslu, hún hækkar vexti frá mánuði til mánaðar. Þetta er undarlegt framlag í þá baráttu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Allar líkur eru á að þessi skattalækkun verði að engu í verðbólgugosi sem fylgi í kjölfarið. (Forseti hringir.) Þetta er dæmi um kolvitlausa hagstjórn, eins vitlausa og hún mögulega getur verið.