145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hér er verið að fella niður tolla af mikilvægum vörum, neysluvörum, nauðsynjavörum fyrir almenning, fatnaði, skóm o.fl. Við í Bjartri framtíð fögnum því. Þetta er alveg í samræmi við okkar áherslur og stefnu. Ég vil nota tækifærið enn og aftur til að hvetja til þess að stigin verði frekari skref. Enn er mikilvæg neysluvara háð verulegum tollum, matur, og mér finnst augljóst að í heimi sem er sífellt að færast í þá átt að það er umframeftirspurn eftir matvælum og umframeftirspurn eftir góðum matvælum eins og Íslendingar framleiða er orðið fáránlegra og fáránlegra að við viðhöldum verndartollakerfi í matvælum. Við erum farin að horfa til útflutnings og erum fyrst og fremst matvælaútflutningsþjóð vegna þess að fiskur er matur.

Hver er samkeppnin í lambakjöti svo dæmi sé tekið? Af hverju erum við með svona háa verndartolla á lambakjöt? Ég nefni bara dæmi um augljósa vöru sem við framleiðum sjálf. (Forseti hringir.) Við þurfum að fara að stíga frekari skref til afnáms tolla og horfa á matvælin, en við styðjum þetta.