145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[12:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átti í pínulitlum vandræðum með að ákveða mig hvað varðar þessa grein og þá næstu vegna þess að hér í 45. gr. er fjallað um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, og sóknargjöld í 46. gr. Ég er á móti lögunum í heild sinni og að sjálfsögðu hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Ég vek athygli á því, að gefnu tilefni, að það er ekki trúarleg afstaða, það er pólitísk afstaða um jafnræði fyrir lögum og það að meiri hluti á ekki sjálfkrafa að njóta einhverra forréttinda.

Hér er um að ræða greinar sem veita meiri hluta forréttindi sem ég er í grundvallaratriðum á móti, hvort sem um er að ræða trúarbrögð, kynþátt, stjórnmálaskoðanir eða hvaðeina. Ég er á móti lögunum í heild sinni, ég sit hjá í þetta sinn vegna þess að fyrir mér er þetta ekki spurning um upphæðir heldur prinsipp.