145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar. Meiri hluti Alþingis hafnaði breytingartillögu minni hlutans sem lögð var fram við 2. umr. fjáraukalaga um að tryggja að aldraðir og öryrkjar fengju sambærilegar launahækkanir frá 1. maí sl. og samið var um við launþega á almenna markaðinum. Eftir að frumvarpinu var vísað að nýju til fjárlaganefndar hefur nefndin fengið til sín gesti frá Öryrkjabandalagi Íslands, Landssambandi eldri borgara, velferðarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti og farið með þeim yfir þær forsendur frumvarpsins sem tengjast bótaflokkum þessara aðila. Minni hlutinn lýsir yfir vonbrigðum með forgangsröðun meiri hlutans sem telur það greinilega ekki forgangsmál að tryggja stöðu þeirra sem minnst mega sín.

Komið hefur í ljós að fjármála- og efnahagsráðuneytið tekur inn í útreikninga sína þá 3% hækkun launa sem féll til í upphafi árs 2015 en tengist ekki þeim kjarasamningum sem gerðir voru á almenna markaðinum í maí sl. Því vantar þá hækkun inn í bótaflokka aldraðra og öryrkja. Einnig hefur komið í ljós að við útreikningana sleppir fjármála- og efnahagsráðuneytið launaskriði sem hefur orðið og lækkar með þeim hætti kaupmátt eldri borgara og öryrkja.

Stjórnarliðar felldu við 2. umr. tillögu minni hluta fjárlaganefndar um að lífeyrir hækki frá 1. maí 2015, eins og áður sagði. Í tillögunni var miðað við samninga sem VR og Flóabandalagið gerðu við viðsemjendur sína. Lægstu laun hækka samkvæmt þeim samningum í fjórum skrefum til ársins 2018 í um 300 þús. kr. mánaðarlaun. 1. maí 2015 hækkuðu lægstu launin í um 255 þús. kr. á mánuði og frá 1. maí 2016 verða þau komin í um 270 þús. kr. á mánuði.

Landssamband eldri borgara miðar við aðra samninga í sínum útreikningi og segir að hækkunin frá 1. maí eigi að vera afturvirk 14,5% en ekki 10,9% eins og tillaga minni hlutans gengur út frá. Þrátt fyrir það eru þessi lágu laun mun hærri en þau sem öldruðum og öryrkjum er boðið samkvæmt ákvörðunum ríkisstjórnarinnar en samkvæmt henni verður lífeyrir með heimilisuppbót fyrir fólk sem býr eitt um 247 þús. kr. á árinu 2016. Bætur einstaklings sem býr með öðrum verða um 213 þús. kr. á mánuði.

Fulltrúar minni hlutans og áheyrnarfulltrúi í nefndinni leggja fram breytingartillögu en þar er lagt til 6,7 milljarða kr. framlag til að bæta öldruðum og öryrkjum þær kjaraskerðingar sem þeir verða annars fyrir. Hluti þeirrar upphæðar rennur til baka í ríkissjóð í formi skattgreiðslna.

Undir þetta nefndarálit skrifa ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir og Ásta Guðrún Helgadóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk álitinu.

Frú forseti. Ég vil bæta við nokkrum orðum. Hægri stjórnin sem nú er við völd á Íslandi vill ekki hækka lífeyri eldri borgara og öryrkja afturvirkt í takt við lægstu laun. Þau líta þannig á að bætur almannatrygginga eigi einungis að hækka árlega í fjárlögum og þá frá 1. janúar ár hvert en ekki á miðju ári þótt gerðir hafi verið kjarasamningar í millitíðinni. Þetta segir í nýlegu minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til fjárlaganefndar. Þau virðast líta þannig á að samkvæmt lögum eigi að skilja eftir einn hóp í samfélaginu og halda honum á verri kjörum en þeir njóta sem eru á lægstu umsömdu laununum.

Með minnisblöðum til fjárlaganefndar er reynt að gera sem mest úr hækkun á elli- og örorkulífeyri frá næstu áramótum. En það er alveg sama hvernig þau fara með prósentutölurnar, þau tala um uppsafnaðar prósentutölur og uppsafnaða milljarða á milli ára og reyna síðan að rugla öllu saman með fjölgun eldri borgara, þetta er gert til þess að rugla fólk í ríminu. Niðurstaðan verður alltaf sú sama: Kjör aldraðra og öryrkja sem hafa ekki laun annars staðar frá verða verri en annarra, bæði á árinu 2015 og árinu 2016.

Lög um almannatryggingar voru sett til að verja kjör eldri borgara og öryrkja. Þau voru sett til þess að fólk héldi reisn sinni og gæti lifað mannsæmandi lífi. Lögin voru ekki sett til þess að tryggja að aldraðir og þeir sem eru óvinnufærir vegna örorku væru allra fátækasta fólkið í samfélaginu.

Fordæmi er frá kjarasamningum árið 2011 en þá voru lægstu laun einnig hækkuð umfram önnur. Eldri borgarar og öryrkjar nutu þeirra hækkana þá og fengu þær um mitt ár eins og aðrir. Það var réttlátt og það var í anda laga um almannatryggingar. Sömu leið ættum við auðvitað að fara nú en hægri stjórnin sýnir hvorki samkennd né mannúð og skilur ekki réttlætissjónarmiðin að því er virðist. Hún virðist aðeins skilja ískaldan lagatextann og ber hann fyrir sig þrátt fyrir að fordæmi séu til um annað.

Frú forseti. Þetta er hægri stefna sem ég hafði gert mér vonir um að Framsóknarflokkurinn gæti ekki kvittað undir. Framsóknarflokkurinn hafði á sínum stóra fundi samþykkt að sá flokkur mundi standa vörð um kjör aldraðra og öryrkja en þeir beygja sig undir vilja samstarfsflokksins í málinu, hafa ekki kjark til að standa uppi í hárinu á þeim og vitna sjálfir í lagatextann og stefna formanns fjárlaganefndar virðist vera hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn.

Það er nefnilega þannig að ef menn taka tölurnar sem birtast í minnisblöðum frá velferðarráðuneytinu um stöðu lífeyrisþega á árunum 2015 og 2016 og bera saman við umsamda taxta á árinu 2015 og 2016 þá er mikill munur þarna á. Árslaun eldri borgara og ellilífeyrisþega eða lífeyrisþega sem búa einir og fá heimilisuppbót, og eru þess vegna í bestu stöðu þeirra sem ekki fá laun annars staðar frá, eru á árinu 2015 2.700.000 kr. En árslaun þeirra sem eru á lægstu töxtunum hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og Flóabandalaginu eru á árinu 2015 2.960.000. Þarna munar 260 þús. kr. yfir árið.

Hvernig í ósköpunum fær stjórnarmeirihlutinn það út að þetta sé sambærilegt? Hvað gerist svo um áramótin? Ef við skoðum árið 2016 samkvæmt hækkunum sem eru í minnisblaði frá velferðarráðuneytinu fyrir einstakling sem býr einn og er með heimilisuppbót þá eru árslaunin hans á árinu 2016 eftir hækkanir 1. janúar, sem duga þá út allt árið, 2.964.000 kr. En þeir sem eru á lægstu töxtunum hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og Flóabandalaginu verða með 3.180.000 kr. og það er líka munur þarna á sem er ekki öldruðum og öryrkjum í hag. Munurinn á árinu 2016 verður þá 216 þús. kr.

Þess vegna er ég svo hissa á umræðunni hér. Meira að segja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra stendur hér í pontu og segir að aldraðir og öryrkjar verði jafn settir lægstu launum frá 1. janúar 2016. Þetta sagði hæstv. ráðherra. Hún tók ekki fram að 1. maí 2016 hækka lægstu laun um 5,9%. Verið er að segja hálfan sannleikann til þess að blekkja okkur. Það er óþolandi. Það er ekki aðeins verið að reyna að blekkja okkur þingmenn heldur er einnig verið að blekkja almenning í málinu.

Ég leyfi mér að segja hér sem gamall stærðfræðikennari að ef fólk rifjar upp stærðfræðina sem það lærði í 12 ára bekk þá sér það að verið er að halda öldruðum og öryrkjum undir lágmarkslaunum. Það er ekki þannig að það muni einhverjum 5.000 kalli. Það munar svo hundruðum þúsunda skiptir ef horft er á árslaun.

Þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talar um bætur almannatrygginga úr þessum ræðustól þá segir hann, frú forseti, að það sé nauðsynlegt að halda þessum hópi undir lágmarkslaunum vegna þess að það þurfi að vera hvati fyrir þau til þess að fara út að vinna. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er að tala um aldraða og öryrkja. Það er sannarlega misjöfn staða innan þess hóps, en það sem við erum að ræða hér og það sem umræðan hefur verið um í fjáraukalögum og fjárlögum er hópurinn sem hefur engin laun annars staðar frá. Það er sá hópur sem við erum að tala um.

Enn er verið að reyna að rugla umræðuna með því að vera að blanda öðrum hópum inn í málin. Og hvernig er það, frú forseti, hvers konar hvati er það fyrir gamlan mann sem kominn er af vinnumarkaði? Hvaða hvati felst í því að halda kjörum hans undir lágmarkslaunum í landinu? Hvaða hvati er það? Hvað hvati felst í því fyrir öryrkja sem getur ekki unnið að halda honum á lágmarkslaunum?

Ég skil þetta ekki en þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var að tala um að það þyrfti að vera einhver hvati dró hann fram hóp öryrkja og sagði að í þeim hópi væru ungir menn sem hefðu flosnað upp úr framhaldsskólum og gætu ekki fótað sig. Það þyrfti að vera einhver hvati fyrir þá að fara út að vinna og hrista af sér örorkuna. Ég veit eiginlega ekki hvað hann átti við.

Það má vera að einhver hópur sé þannig staddur að það sé árangursríkt að svelta hann út á vinnumarkaðinn, þó að ég þekki ekki slíkt fólk. En hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra virðist gera það og telur að árangursríkt sé að fara þá leið að halda fólki fyrir neðan hungurmörk í framfærslu.

Nær væri að opna framhaldsskólana fyrir þennan hóp. En gerir hægri stjórnin það? Nei. Hún setur fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla á þá sem hafa náð 25 ára aldri. Það rekst hvað á annað horn.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði í andsvari fyrr í dag að það væri sjálfsagt mál að halda öryrkjum og öldruðum undir lágmarkslaunum því að það væri miklu ódýrara að lifa ef maður væri í þeim hópi. Aldraðir ættu til dæmis ekki börn og það væri ákveðinn kostnaður þar. (Gripið fram í: En öryrkjar?) Það má vera að þeir eigi börn en einhverra hluta vegna (Gripið fram í.) telur formaður fjárlaganefndar að það sé ódýrara að lifa fyrir þá sem eru í þessum hópi.

Ég hvet alla þingmenn sem á þetta hlýða og aðra þá sem eru að horfa á Alþingisrásina að hlusta á þetta svar formanns fjárlaganefndar og hlusta þá inn í þessa pólitík framsóknarmanna sem hún hlýtur að vera að kynna með orðum sínum. Hún er talsmaður þeirra í fjárlaganefnd og þeir styðja hana og standa að baki henni þar og geta ekki afneitað henni. Það hryggir mig að Framsóknarflokkurinn skuli bera þá stefnu uppi sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerir þegar kemur að málefnum aldraðra og öryrkja í samfélaginu.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en við erum með breytingartillögu, eins og ég sagði áðan, í minni hlutanum þar sem við gerum ráð fyrir að aldraðir og öryrkjar fái hækkun upp á 10,9% frá 1. maí og út árið. Alveg eins og í fjárlögunum erum við með tillögu um að aldraðir og öryrkjar hækki frá 1. maí 2016. Þetta er réttlætismál og ég veit að úti í samfélaginu er mikill stuðningur við þetta mál. Það er nánast hver einasti Íslendingur sem sér óréttlætið í því að horft sé á ískaldan lagatexta en ekki á anda laganna og það sem gerðist í kjarasamningum í ár þegar lægstu laun voru hækkuð.

Mér finnst ómögulegt að þurfa að hætta þessari baráttu núna og láta hægri stefnuna ráða í þessu máli, en sjálfsagt verð ég að sætta mig við hana. En baráttunni er ekki lokið því að það kemur dagur eftir þennan dag og við í minni hlutanum munum halda áfram að berjast fyrir bættum kjörum og reyna að berja á bak aftur þá öfgafullu hægri stefnu sem birtist í tillögu hæstv. ríkisstjórnar, að ætla að halda þessum hópi fátækustum á Íslandi.