145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsaleigulög.

399. mál
[21:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir ræðuna. Þetta frumvarp var til umfjöllunar í velferðarnefnd sl. þingvetur. Við vorum nánast búin með það en tókum þá ákvörðun að láta það bíða á milli þinga. Það bráðlá ekki á því og það voru ákveðin atriði sem mátti gjarnan skoða betur. Ég fagna því. Þetta verður þægileg vinna fyrir okkur. Við vorum orðin vel að okkur í þessu. Það er ágætt að taka það fram að við munum strax í fyrramálið halda fund og senda öll þessi mál út til umsagnar og hefja svo vinnu af fullum krafti við þau í janúar.

Það sem mér fannst erfiðast í umfjölluninni síðast og er enn erfitt er tryggingargjaldið. Þá komum við að réttindum leigjenda á Íslandi. Þau hafa verið slök í gegnum tíðina og húsnæðisóöryggi mikið. Það er vegna skorts á framboði af húsnæði hjá leigufélögum. Nú er það að breytast og með frumvarpinu um almennar leiguíbúðir er líka verið að gera bragarbót á því. Vonandi eykst framboðið því að það eitt og sér að ekki sé skortur á húsnæði eykur líka rétt fólks því að það er erfiðara að hlunnfara fólk þegar aðrir eru ekki endilega strax tilbúnir að flytja inn.

Ég velti fyrir mér með þessar tryggingargreiðslur því að nú getur ungt fólk í Reykjavík, sem ætlar að leigja tveggja til þriggja herbergja íbúð, þurft að leggja fram allt að hálfa milljón í tryggingarfé á sama tíma og það er að greiða fyrsta mánuð leigunnar. Maður veltir fyrir sér hvort það séu ekki til einhverjar leiðir til að styðja við fólk því að það er ekki á allra færi að leggja slíka fjármuni fram, hvað þá að fá (Forseti hringir.) bankaábyrgð þegar um ungt fólk er að ræða með litla viðskiptasögu.