145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í gær ræddum við mjög áhugavert og þarft mál frá hv. 6. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, Björt Ólafsdóttur, hv. þm. Bjartrar framtíðar, sem varðar hefndarklám eða hrelliklám. Það er afskaplega mikilvægt mál að mínu mati. Við vorum sammála í ræðum um að við vonuðum að málið kæmist í gegnum þingið án þess að verða hluti af einhverjum „vílum og dílum“ og samningum og því um líku, sem þingmönnum þykir sjálfsagt erfitt að tala um eða í það minnsta óþægilegt.

Af því tilefni fór ég að hugsa enn og aftur um það hvernig Alþingi virkar og hvernig forgangsröðunin er í sambandi við þingmál og annað slíkt. Hægt er að taka saman einhverja tölfræði um það að á Alþingi séu svo og svo mörg þingmannamál samþykkt eða svo og svo mörg þingmannamál sem komist til umræðu. En hins vegar er ákveðinn tónn ávallt í bakgrunninum, að Alþingi sé í raun afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina, sem ég tel vera mjög óhollt og ekki í samræmi við það þarfa starf sem Alþingi þarf að sinna á 21. öldinni þegar fram koma ýmsar áskoranir á borð við hrelliklám og sambærilegar ógnir.

Þess vegna finnst mér mikilvægt að við höfum það í huga og töpum ekki þræðinum í þeirri umræðu hvernig við bætum störf þingsins og sér í lagi hvernig við komum fleiri þingmannamálum að, því að nóg er af góðum þingmannamálum sem verðskulda umræðu. Almenningur segir oft að eitt og annað sofni í nefnd vegna þess að menn vilji ekki afgreiða það. Nei, mál sofna í nefnd vegna þess að ekki er tími til að afgreiða þau. Tíminn fer í þras og alls konar læti hér í þingsal vegna þess hvernig fyrirkomulagið er, vegna þess hvernig valdahlutföllin eru og vegna þess hvernig Alþingi upplifir hlutverk sitt. Ég legg til að við höfum það áfram í huga í framtíðinni.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna