145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Garðarssyni fyrir prýðilega skýrslu af framgangi mála hjá Evrópuráðinu. Það kemur fram í skýrslunni, eins og í mörgum skýrslum þeirra funda sem þingmenn sitja á erlendum vettvangi fyrir Alþingi Íslendinga, að eitt þeirra mála sem hefur hæst borið í umræðum og á fundum Evrópuráðsins er vitaskuld deilan sem hefur spunnist um íhlutun Rússa í Úkraínu. Hv. þingmaður situr í utanríkismálanefnd og sinnir mjög vel utanríkismálum fyrir hönd Alþingis. Honum hafa líka verið falin trúnaðarstörf fyrir sinn flokkahóp og er þess vegna hnútum kunnugur. Mig fýsir að vita hvort hv. þingmaður getur gert sér einhverja grein fyrir því, af þeim umræðum sem hann hefur tekið þátt í á vettvangi Evrópuráðsins og þeim fundum sem hann hefur setið, hvernig líklegt er að þessi togstreita og deila sem hefur staðið vegna Rússlands og Úkraínu muni þróast. Við höfum séð það að Vesturlönd hafa gripið til ákveðinna viðbragða. Sumum finnast þau linkuleg og skila litlum árangri, en klárt er að þau hafa alla vega kallað yfir þær þjóðir sem að þeim standa gagnaðgerðir sem hafa líka haft í för með sér erfiðleika. Við höfum orðið þess áskynja að ýmsir af hinum stóru leikurum á hinu alþjóðlega sviði eru á bak við tjöldin að reyna að finna lausn á málinu sem hugsanlega tæki líka til lausnar á ýmsum öðrum vandamálum, sem tengjast t.d. Sýrlandi.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hann sér einhver merki þess að hugsanlegt sé að í þessa deilu komist á næstunni eða þessu ári einhver lausn sem báðir aðilar geti við unað og leiði hugsanlega til þess að gagnkvæmum aðgerðum verði aflétt.