145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:18]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég kem nú bara hér upp til að fagna þessari tillögu frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem leggja hana fram og ég tel hana löngu tímabæra.

Það hefur ekki síst komið í ljós núna fyrir jólin, þegar við stóðum í stappi með afturvirkar greiðslur til þessa hóps, að það hefði kannski ekki verið slæmt fyrir þennan hóp að hafa umboðsmann til að vinna að sínum málum. Ekki síst finnst mér það algjörlega nauðsynlegt í ljósi þess að þjóðin er að eldast eins og fram kemur hér.

Það eru margir sem búa við mjög bágan kost af eldri borgurum. Það kom líka í ljós hérna fyrir áramótin, þegar verið var að ræða þessi mál, að það eru um og yfir 4.000 einstaklingar, eldri borgarar, sem búa við fátæktarmörk. Þetta er fólk sem hefur nánast ekki í nein hús að venda.

Nú er ég ekkert að lasta það fólk sem er í forsvari fyrir eldri borgara. Þetta er dugmikið fólk sem berst áfram fyrir réttindum síns fólks, en það vantar töluvert mikið upp á. Ég tek líka undir með þeim sem hafa talað hér, eins og hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, og spyr: Þurfa öryrkjar líka umboðsmann?

Það er spurning sem er mjög mikilvæg og við ættum að taka til umræðu hér á þingi vegna þess að þessir hópar fólks hafa ekki samningsrétt og eru upp á Alþingi komnir með það að lifa. Eins og kannski kom fram var gríðarleg undiralda í samfélaginu fyrir jól og eldri borgarar og öryrkjar, þó að maður eigi kannski ekki alltaf að spyrða þessa tvo hópa saman, lögðu á það gríðarlega áherslu að þingmenn stæðu með þeim og uppfylltu það réttlæti sem þeir fóru fram á. Það brást eins og kom í ljós og ekkert við því að gera.

En umboðsmaður aldraðra væri stórt skref. Ég furða mig líka á því, þegar maður les þessa greinargerð og annað, að sams konar mál hafa verið lögð fram margoft áður og aldrei hlotið hljómgrunn. Ég velti því fyrir mér hvers vegna. Hvaða augum lítum við eldri borgara í þessu landi? Þessi hópur er sístækkandi og við þekkjum það öll hér inni. Við eigum aldraða foreldra, skyldmenni og annað sem hafa það ekkert allt of gott og búa við fátæktarmörk.

Við erum ekki að bjóða þessu fólki upp á mannsæmandi lífskjör. Það er algjört lykilatriði að búa í samfélagi þar sem öllum er séð fyrir mannsæmandi lífskjörum. Það stendur í öllum sáttmálum sem við höfum skrifað undir og stjórnarskrá. Þess vegna fagna ég þessu virkilega.

Mér datt í hug, þegar við vorum að ræða þetta hér áðan, þegar hv. þm. Karl Garðarsson mælti hér fyrir þingsályktunartillögunni, að það var maður sem hringdi í mig fyrir jól. Það voru reyndar tveir menn sem hringdu í mig rétt fyrir jól, eldri menn, rúmlega 80 ára báðir, sem gátu ekki einu sinni veitt sér þann munað að kaupa sér lyf. Þeir voru með um 160–170 þús. kr. útborgaðar á mánuði, þar af fóru 90 þús. kr. í leigu og síðan þurftu þeir að reyna að reka bíl og annað. Annar þeirra upplifði á sínum tíma snjóflóðið á Patreksfirði þar sem hann missti móður sína og bróður og hafði fengið loforð um að fá styrk og framfærslu frá ríkinu til að byrja nýtt líf annars staðar. Það var allt svikið og nú býr hann einn í íbúð og getur nánast enga björg sér veitt. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að hlusta á þetta í landi eins og Íslandi þar sem ein ríkasta þjóð í heimi býr.

Það er skammarlegt að við skulum þurfa að vera að tala um það hér á Alþingi að eldri borgarar þessa lands, fólkið sem byggði þetta land upp úr mjög erfiðum aðstæðum, um og í kringum miðja síðustu öld, þurfi að búa við þessar aðstæður. Það er alveg forkastanlegt. Þjóð sem er jafn rík af auðlindum á ekki að þurfa að standa í þessu, að geta ekki boðið fólkinu sínu upp á mannsæmandi lífskjör þegar dregur að endalokunum.

Ég vil því ítreka að ég er mjög ánægður með þessa tillögu og styð hana og vona að hún fái brautargengi. Vonandi fær þetta brautargengi og umræðu í velferðarnefnd og verður afgreitt hér strax í vor. Ég er mjög hlynntur því að öll mál komist í gegn og verði tekin til afgreiðslu í þingi og þetta er eitt af þeim málum sem ég mun veita brautargengi. Það er alveg ljóst.