145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[12:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga með síðari breytingum. Í frumvarpinu er kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt að setja í reglur um félagsþjónustu skilyrði um að umsækjandi sem er vinnufær að hluta eða öllu leyti sé í virkri atvinnuleit og ef einstaklingur uppfylli ekki umrædd skilyrði sé heimilt að skerða grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar sem kemur fram í reglum sveitarfélags um framkvæmd fjárhagsaðstoðar um allt að helming í allt að tvo mánuði í senn, enda hafi hann hætt virkri atvinnuleit án gildra ástæðna. Jafnframt sé heimilt að fella niður aðra fjárhagsaðstoð til hans í allt að sex mánuði í senn. Þetta kemur fram í 2. gr. frumvarpsins.

Forseti. Hér er um að ræða miklu meiri grundvallarbreytingu en hefur vakið athygli í almannaumræðunni eða í fjölmiðlum. Við erum að tala um grundvallarstefnubreytingu á íslenska framfærslukerfinu. Við erum að tala um það öryggisnet sem hefur verið fyrir hendi í aldanna rás á Íslandi, þ.e. að sveitarfélögin séu síðasti viðkomustaður þeirra sem eiga hvergi höfði sínu að halla að öðru leyti, og að við ætlum að taka þessa síðustu björg þeirra sem eru í hvað mestum vanda í samfélaginu og skilyrða hana.

Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands um málið sem var lagt fram í fyrra í fyrra sinn og komst þá til nefndar en kláraðist ekki í fyrravetur segir, með leyfi forseta:

„Sú hætta er fyrir hendi að skilyrði, eins og þau sem eru sett fram hér, muni snúast í andhverfu sína, þ.e. valda erfiðari félagslegri stöðu einstaklinga (s.s. fátækt og einangrun), sem gerir þeim enn erfiðara um vik að komast út á vinnumarkaðinn.“

Forseti. Við höfum verið að ræða að undanförnu í fyrsta lagi umræðuna um kjör öryrkja og aldraðra, sem við ræddum í tengslum við fjárlagaumræðuna, og áhyggjur sem við öll höfum af því að þeir hópar séu í sífellt ríkari mæli að falla milli skips og bryggju í mjög viðvarandi fátækt. Í öðru lagi ný markmið Sameinuðu þjóðanna sem tóku við af þúsaldarmarkmiðunum, sem eru sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna, þar sem fyrsta markmið Sameinuðu þjóðanna er að útrýma fátækt. Í þriðja lagi sú ágæta skýrsla UNICEF sem var rædd í sérstakri umræðu rétt áðan á þingfundinum þar sem fram kemur að skortur í lífi barna á Íslandi hefur aukist. Við hljótum að skoða þetta þingmál í því ljósi. Við hljótum að skoða þetta þingmál í samhengi við alþjóðlega baráttu gegn fátækt, í samhengi við aukinn skort íslenskra barna og í samhengi við stöðu öryrkja og aldraðra á Íslandi.

Þetta þingmál um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er til þess fallið að auka fátækt á Íslandi. Það er að minnsta kosti til þess fallið að auka hættuna á því að fleiri lendi í vanda vegna fátæktar.

Velferðarvaktin sem var sett saman á vegum velferðarráðuneytisins á sínum tíma skoðaði sérstaklega þann þátt sem lýtur að viðmiðum til lágmarksframfærslu í skýrslu sinni í janúar á árinu 2015, tillögur um aðgerðir til að vinna bug á fátækt. Það er mikilvægt að þarna erum við með helstu sérfræðinga okkar á þeim sviðum. Þar kemur fram meðal annars að velferðarvaktin telur að rétt sé að stjórnvöld yfirfari forsendur og útreikninga sem liggja að baki fjárhæðum til lágmarksframfærslu með það að markmiði að einstaklingar, fjölskyldur og barnafjölskyldur búi ekki við fátækt. Sannarlega erum við þarna í einhverjum tilvikum að tala um nákvæmlega þessar fjölskyldur. Við megum ekki gleyma því að það eru líka börn á heimilum þeirra sem njóta fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna. Þar eru líka börn sem þar með þurfa að búa við meiri skort. Og þar eru líka börn sem þar með þurfa að þola það, algjörlega án þess að ábyrgðin sé hjá þeim, að framfærsluaðilinn þoli að fjárhagsaðstoðin sé skert um helming í allt að tvo mánuði í senn, enda hafi hann hætt virkri atvinnuleit án gildra ástæðna. Við getum að minnsta kosti verið viss um að það er ekki á ábyrgð barnsins á heimilinu ef sú ákvörðun hefur verið tekin.

Það var einhvern tímann sagt að það þyrfti þorp til að ala upp barn. Það er sannarlega rétt. Þótt það hafi ekki verið sérstaklega um það fjallað í skýrslu UNICEF um skort í lífi barna þá er vanræksla og erfiður aðbúnaður barna ekki aðeins á ábyrgð fjölskyldunnar og heimilisins, það er á ábyrgð okkar allra og á ábyrgð þessarar stóru samfélagsfjölskyldu allrar. Þess vegna erum við með barnaverndarlög. Þess vegna erum við með ýmiss konar barnasáttmála og ýmiss konar utanumhald sem lýtur að því að gæta að hagsmunum barna þegar ábyrgðarkennd eða efnahagslegum aðstæðum foreldranna sleppir.

Ég bið þingheim að huga sérstaklega að þeim rökum þegar þetta tiltekna mál er tekið til skoðunar vegna þess að það er ekkert annað kerfi sem grípur inn í þegar þessu kerfi hér sleppir.

Í textum velferðarvaktarinnar segir að hún telji að næstu skref varðandi mat á fjárhæðum til lágmarksframfærslu séu að stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, setji á fót starfshóp sem yfirfari forsendur útreikninga sem liggja að baki fjárhagsupphæðum til lágmarksframfærslu með það að markmiði að einstaklingar og fjölskyldur búi ekki við fátækt. Það er markmið velferðarvaktar velferðarráðuneytisins að stuðla að því að fjölskyldur, og þá sérstaklega barnafjölskyldur, búi ekki við fátækt.

Ég hef efasemdir um það, og ræddi það raunar við hæstv. ráðherra þegar málið var til umfjöllunar í fyrra á fyrra þingi, að þetta standist, þ.e. þessar tillögur velferðarvaktarinnar annars vegar og síðar framlagning þess þingmáls sem er til umfjöllunar, enda segir líka í textanum frá velferðarvaktinni að skoða þurfi sérstaklega og fylgjast með umræðunni hérlendis og erlendis hvað þennan þátt varðar. Það er raunalegt til þess að vita að sá ráðherra sem hefur það hlutverk samkvæmt forsetabréfi og samkvæmt íslenskri stjórnskipan að vera sá ráðherra sem fer með og gætir hagsmuna fátækasta fólksins á Íslandi skuli finna það í sér að leggja fram frumvarp sem er til þess að gera þessu fólki lífið enn þá erfiðara. Það er eiginlega með algerum ólíkindum að sá ráðherra skuli gera það þegar þau sjónarmið sem koma fram hjá velferðarvaktinni sjálfri en ekki síður hjá Öryrkjabandalaginu, sem þekkir auðvitað vel til þessara mála, eru í allt aðra átt. Það eru auðvitað sjónarmið sem hafa komið fram hjá sveitarfélögunum, sem eru rök sem lúta að því að þarna sé um fjárhagsleg útgjöld að ræða og allt er það rétt. Það eru líka rök sem lúta að því að það sé ábyrgt og það sé ábyrgara samfélag sem hvetur fólk til virkni en fólk sem hvetur fólk til dáðleysis. Það er allt rétt sem þar kemur fram. Við skulum ekki gleyma því að það að refsa fólki til virkni, að refsa því frekar en að hvetja það — svo mikið veit ég, hafandi þó komið fjórum krökkum til manns, að hvatning er betri leið en refsileið.

Hvert er markmið okkar með þessu öllu saman? Inn í hvaða mynd er þetta frumvarp hér sett? Í hvaða samhengi er frumvarpið? Það hlýtur að vera markmið, ekki bara stjórnarandstöðunnar heldur líka markmið ríkisstjórnarflokkanna, það hlýtur að vera markmið Sjálfstæðisflokksins og markmið Framsóknarflokksins að bæta samfélagið. Er það ekki svo? Er það ekki þess vegna sem við erum hér, til þess að búa til betra samfélag, réttlátara samfélag þar sem okkur líður betur, þar sem fleirum líður betur? Það kemur fram í máli sjálfstæðismanna og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að öllum líði betur eftir því sem er meiri bisniss í samfélaginu og einkaaðilar séu í meira stuði af því að þá hrjóti molarnir af gnægtaborðinu til þeirra sem neðar eru í píramídanum. Gott og vel, þetta er afstaða sem lýtur að leiðinni að markmiðinu, yfirmarkmiðinu um betra samfélag.

Ef við erum sammála um þetta, sú sem hér stendur og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem setur sig eindregið gegn þessu frumvarpi og er einhuga í því, ef við erum sammála Framsóknarflokknum í því að byggja betra samfélag vil ég spyrja og velta því upp, og það væri ágætt ef það mundi detta einhver framsóknarmaður inn á mælendaskrá: Hvaða leiðir eru bestar til þess að nálgast það markmið að því er varðar daglegt líf þessa fólks? Ég er ekki að tala um sveitarfélögin sem rekstrareiningu. Ég er ekki að tala um almennar meginreglur varðandi það að hvetja fólk til virkni. Ég er að tala um sárafátækt fólks sem margt hvert er með börn á framfæri. Hvernig tryggjum við það að búa til eitthvert kerfi sem nálgast það markmið að vera með betra samfélag, sanngjarnari úthlutun fjár á vettvangi sveitarfélaganna, en um leið án þess að vega að öryggi og lífsgæðum fátækra barna á Íslandi? Þetta er í raun og veru umfjöllunarefnið.

Við getum ekki og við höfum ekki til þess leyfi þegar við erum að tala um mál sem stafa frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að ræða það einungis eins og einhvers konar hluta af reiknilíkani eða hluta af einhvers konar dálkum sem þurfa að ganga upp. Af þessu hef ég áhyggjur.

Öryrkjabandalagið segir, með leyfi forseta:

„Skoða ætti aðrar leiðir til að ná sömu markmiðum,“ — ég held að við ættum að horfa á það sem hér er sagt — „sem byggja á jákvæðari nálgun og því að byggja fólk upp. Í stað þess að einstaklingar og fjölskyldur eigi yfir höfði sér að missa framfærsluna að öllu eða verulegu leyti, geti fólk treyst á ákveðna grunnframfærslu, sem aldrei yrði skert og geti með aukinni virkni og atvinnu bætt fjárhagsstöðu sína. Leggja þarf áherslu á hvatningu og stuðning við þá sem þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð til að auka virkni sína, í stað þess að beita skilyrðum og skerðingum.“

Ég held, forseti, að ef það eru einhver heildarsamtök á Íslandi sem þekkja þessi mál séu það Öryrkjabandalag Íslands til viðbótar við heildarsamtök vinnandi fólks og verkalýðshreyfinguna. Ég held að við þurfum að hlusta eftir þessu.

Nú hefur það verið sagt í umræðunni á fyrri stigum að sum sveitarfélög geri þetta nú þegar og meðal annars hefur verið vísað til Hafnarfjarðar og fleiri sveitarfélaga. Ég er ósammála því að þessi sveitarfélög geri þetta. Ég er ósátt við að það skuli hafa verið gert. Ég hef sagt það í því samhengi þar sem sú umræða hefur komið upp. Af hverju er ég ósátt við það? Í fyrsta lagi vegna þess að ég tel þetta ranga samfélagspólitík og í öðru lagi vegna þess að ég tel að það sé ekki lagagrunnur til að gera þetta. Það er raunar staðfest með því að leggja þetta frumvarp fram að sveitarfélögin hafi við núverandi skilyrði ekki þessa lagaheimild, maður getur auðvitað gagnályktað, með því að hæstv. ráðherra leggi frumvarpið fram til að renna lagalegum stoðum undir þessa framkvæmd hjá einhverjum sveitarfélögum.

Virðulegur forseti. Ég ætla að láta þetta duga í fyrstu ræðu minni í 1. umr. um þetta frumvarp. Ég vonast til þess í fullri einlægni að hv. velferðarnefnd skoði þau sjónarmið sem ég hef reifað í ræðunni og horfi þá sérstaklega til sjónarmiða sem koma fram hjá velferðarvaktinni, en ekki síður umsagnar Öryrkjabandalags Íslands um málið á fyrri stigum.