145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég fæ best séð frá fjölmiðlum um þetta mál tel ég þessa breytingu eina og sér ekki vera hættulega sem slíka en hún vekur hins vegar réttmætar spurningar og ég þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir að kalla til þessarar umræðu vegna þess að tortryggnin sem rís upp þegar þessi mál ber á góma og þegar svona fréttir berast er mjög réttmæt. Hún er ekki aðeins skiljanleg heldur er hún byggð á reynslu af veigamiklum mistökum í utanríkismálastefnu Bandaríkjanna, sérstaklega þegar Ísland hefur asnast með í þá vegferð. Ég bið virðulegan forseta að fyrirgefa orðbragðið en ég tel það við hæfi.

Eitt sorglegasta dæmið um spádóma sem hafa ræst var Íraksstríðið árið 2003 þar sem því var spáð að það mundi auka ógnina af hryðjuverkum til lengri tíma, sem er nákvæmlega það sem hefur gerst. Það er ekki hægt að segja að uppgangur ríkis íslams í Miðausturlöndum núna, sérstaklega Sýrlandi og norðurhluta Íraks, sé neitt annað en bein afleiðing af þeirri vondu ákvörðun sem Ísland tók þátt í og var ekki kölluð meiri háttar ákvörðun á þeim tíma.

Það er kaldhæðnislegt að síðar í þeirri umræðu sagði þáverandi hæstv. ráðherra að jafnvel þótt menn sæju ekki fyrir sér nákvæmlega hvaða ógn steðjaði að Íslandi gæti alltaf eitthvað hræðilegt gerst og þess vegna þyrftu menn að hafa varnir. En það voru ástæður. Ein var að við vorum með Bandaríkjaher og önnur að við studdum Íraksstríðið. Það er ekki sjálfkrafa aukning á öryggi að auka hervald. Meiri hernaðarviðbúnaður þýðir ekki sjálfkrafa að maður sé öruggari. Ákvarðanirnar skipta máli og þegar við lítum fram á veginn eigum við að reyna að læra af mistökum fortíðarinnar þegar við höfum tekið þátt í veigamiklum, sérstaklega fyrirséðum mistökum í utanríkismálastefnu Bandaríkjanna.

Þess vegna er þessi tortryggni algjörlega réttmæt, hún er algjörlega skiljanleg og hún er mikilvæg til þess að þegar fram líði stundir pössum við okkur betur þegar við tökum ákvarðanir í samfloti við vinaþjóðir okkar. (Gripið fram í: Hvað finnst þér um …?)