145. löggjafarþing — 82. fundur,  1. mars 2016.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að fá þær fregnir frá forsendunefnd Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem hefur metið það svo sameiginlega að meginforsendur kjarasamninga frá því í maí á síðasta ári, 2015, hafi staðist. Það er bætt í og kemur fram í þeirra mati að kaupmáttur launa hafi aukist enda er það svo að við höfum orðið vör við það á eigin skinni að kaupmáttur hefur aukist, verðbólga er í sögulegu lágmarki og atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki. Mælivísar sýna að almenningur telur almennt að það sé betra ástand í þjóðfélaginu en verið hefur um langan tíma og menn skynja að við búum við mikil lífsgæði hér á landi.

Hins vegar er eitt sem veldur ákveðnum óþægindum. Það er eiginlega of vægt til orða tekið að segja óþægindi. Þá er ég að tala um gjaldtöku bankanna. Ég er með í höndunum lánaseðil þar sem viðkomandi er í þeirri stöðu að vera einni afborgun á eftir. Það sem bætist ofan á greiðslu af láninu er hvorki meira né minna en 5.000 kr. sem skiptast í það sem bankinn kallar tilkynningargjald, vanskilagjald, milliinnheimtugjald upp á 3.700 kr. og síðan eru auðvitað dráttarvextir. Ef margir eru í þessari stöðu er ekki nema von að bankarnir græði vel á eymd þeirra. Og takið eftir, ég sagði að viðkomandi væri einungis einni afborgun á eftir. (Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem verður að taka á.


Efnisorð er vísa í ræðuna