145. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2016.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

354. mál
[19:44]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Mig langar að ítreka að við erum einungis að fara í könnunarleiðangur um kerfið til að skoða þessa leið eða aðrar leiðir; það eru til margar útfærslur af borgaralaunum. Á sama tíma fylgjumst við mjög grannt með því hvernig til tekst í löndunum í kringum okkur. Einn af þeim fjöldamörgu grasrótarhópum sem eru í samsteypunni Podemos á Spáni er til dæmis grunnborgaralaunaflokkur. Það er mikil gerjun og mikið verið að skoða þessa hluti í Evrópu og við erum bara að hefja þá vegferð að kanna hvað er gerlegt.

Ég er hjartanlega ósammála hv. þingmanni sem hér hefur rætt um þessa leið og veit að enginn sem stendur að þessari tillögu mundi nokkurn tíma vilja standa að því að gera kjör þeirra sem minnst mega sín verri. Aldrei. Ég held að við ættum að fagna því að fá tækifæri til að ræða þetta mál frekar í nefnd með þeim sem láta sig þessi mál varða, mismunandi stofnanir og félagasamtök. Ég fagna því að við fáum tækifæri til að ræða þessi mál frekar og hlakka til að ræða frekar við hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur um þessi mál. Við erum að brenna inni á tíma núna en ég hlakka til frekari samskipta og umræðna um borgaralaun.